144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að það þingmál sem var flutt fyrir ári síðan var tekið í gíslingu af stjórnarandstöðunni. Hér var málþóf dag eftir dag um málið, (Gripið fram í.) því var haldið í gíslingu þar til það var alveg augljóst að það mundi ekki nást í gegn (Gripið fram í.) og var gert að skiptimynt í þinglok. Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að málið næði fram að ganga. Þetta er sama stjórnarandstaða og kallar nú eftir (Gripið fram í.) að málið eigi að koma inn í þingið svo hægt sé að tala um það og greiða um það atkvæði. Stjórnarandstaðan þorir ekki að greiða atkvæði um tillögu um að hætta viðræðum við Evrópusambandið eða eitthvað slíkt. Stjórnarandstaðan kemur í veg fyrir að þingið fái að greiða atkvæði um það. (Gripið fram í.) En úr því hv. þingmaður er að [Frammíköll í þingsal.] spyrja þá er það þannig að vilji ríkisstjórnarflokkanna og samþykktir þeirra eru alveg skýrar. Við ætlum okkur að vera utan Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, landsfundur og flokksþing segja nákvæmlega skýrt hvernig þetta á að vera. (Gripið fram í: Lofa öðru.) [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að gæta hljóðs í þingsal.)