144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að ég hefði átt að vera jafn skýr og hv. þingmaður þegar hann sagði í sjónvarpsviðtali að VG mundi aldrei nokkurn tímann samþykkja það að eiga viðræður við Evrópusambandið. Hv. þingmaður sagði nóttina fyrir kosningar að það kæmi aldrei til greina, VG mundi ekki leyfa slíkt, (Gripið fram í.) flokksráðið mundi stoppa það ef til kæmi. Svo kemur þessi maður hér upp, þessi ágæti þingmaður, og fer að væna aðra um að geta ekki staðið á því sem þeir eru að segja. Það er skýrt í bréfinu hvað ríkisstjórnin vill, hún vill ekki eiga aðild að Evrópusambandinu, hún vill að Evrópusambandið taki tillit til þess.