144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Tilsvör hæstv. ráðherra og svör við fyrirspurn hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sýndu okkur í hvaða ferli þetta mál er og hvernig hæstv. ráðherra nálgast það. Hann er búinn að taka ákvörðun um að láta engan þvælast fyrir sér í því að stöðva þessar aðildarviðræður og þá er honum sama um þjóðina og álit hennar, sem og um þingið og álit þess. Við skulum muna hvar málið sofnaði á síðasta þingi, inni í þingnefnd, og líka að þegar til þess var stofnað var það samþykkt með atkvæðum fulltrúa allra þingflokka á Alþingi, þar á meðal þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Við skulum minnast þess að það gæti verið að hæstv. ráðherra teldi að hann hefði ekki aflið í þinginu (Forseti hringir.) til að koma þessari tillögu í gegn. Það er ástæðan fyrir þessu. Þess vegna er þessi málflutningur í gangi hér og hæstv. ráðherra ætti kannski að fara yfir það með okkur um hvað hans á annað hundrað ræður um fundarstjórn forseta á síðasta kjörtímabili fjölluðu. (Forseti hringir.) Það mætti kannski eyða smátíma í það hér.