144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Frá því á fimmtudag í síðustu viku hefur hæstv. utanríkisráðherra vitað að hann mundi þurfa að koma hingað inn í þingið og ræða þessi mál. Hann hefur haft nokkra daga, alla helgina, til að undirbúa sig undir það að koma hingað og sitja fyrir svörum í þinginu. Þó að honum hafi tekist ágætlega upp í lestri ræðu sinnar áðan var undirbúningurinn þó ekki nógu mikill til að geta komið hingað fram með eitthvert jafnaðargeð, af einhverri auðmýkt, af hrokaleysi og rætt þetta mál án þess að vera með skæting, yfirgang og leiðindi. Það er auðvitað áhyggjuefni vegna þess að hér er á ferðinni maður sem fer með utanríkismál landsins. Ef þetta er árangurinn eftir fimm eða sex daga undirbúning, guð hjálpi okkur þá.