144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Bara svo að það komi fram var sá sem hér stendur ekki í þingveislu, af því að Róbert Marshall er að halda yfirlit yfir það hverjir mættu til þingveislu og hverjir ekki, og það var af persónulegum ástæðum.

Við erum hér í umræðum um fundarstjórn forseta og þetta er svona fyrsta sessjónin í dag sem stjórnarandstaðan tekur um fundarstjórn forseta, og ég hef ákaflega gaman af því að hlýða á ræður margra sem hér eru. Ég vil byrja á að segja að mér fannst ræða hæstv. utanríkisráðherra mjög góð áðan og hvernig hann svaraði fyrir þetta mál og hvernig hann hefur farið yfir það og hefur gert það vel undanfarna daga. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, þeim tíðu ferðum stjórnarandstöðunnar í fundarstjórn og þeim stóru orðum sem hafa verið látin falla, hvort það geti verið vegna þess að stjórnarandstaðan sjálf horfir til þess núna og sýpur seyðið af því hvernig haldið var á þessu máli á síðasta kjörtímabili með ólýðræðislegum vinnubrögðum þar sem þessir ágætu þingmenn felldu sjálfir þá tillögu að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) hrossakaup sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti í bók sinni svo eftirminnilega fyrir síðustu jól. En ég hlakka mjög til þegar þessari fundarstjórnarsessjón lýkur (Forseti hringir.) og við förum að fá ræður frá hv. stjórnarandstæðingum, vegna þess að mig langar að eiga orðaskipti við þá hér á eftir. (Gripið fram í.)