144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Ég nýti tækifærið þó að ég telji ekki að ég hafi verið búinn að biðja um orðið aftur. Ég held þá bara áfram þar sem frá var horfið. [Hlátur í þingsal.]

Það gengur ekki í alvörunni — eða gengur það að enn þá sé óvissa um hvernig líta skuli á gildi þingsályktunartillögu? Gengur það að þingið starfi í óvissu um það? Nú er komið skýrt álit frá framkvæmdarvaldinu sem lagt var formlega fyrir þingið um það hvernig framkvæmdarvaldið ætlar að túlka ályktanir frá Alþingi?

Í kjölfar þessa kallaði forseti eftir því að fá sitt eigið álit frá lögfræðiskrifstofu þingsins og fékk það. Nú er eitt og hálft ár liðið og við erum ekki viss um það hvernig málin standa. Hér stöndum við í dag af því að við erum ekki búin að fá það alveg skýrt frá forsetanum hvernig þessum málum er háttað, þ.e. hvert sé gildi þingsályktunartillagna. Við verðum að fá það skýrt fram af því að í lögfræðiálitinu er það skýrt. Það er þingsins sjálfs að endurskoða og eftir atvikum að breyta fyrri ályktunum sínum en ekki framkvæmdarvaldsins. Það er nokkuð sem framkvæmdarvaldið er ekki sammála. (Forseti hringir.) Það kemur líka skýrt fram að ályktanir Alþingis teljist til heimilda stjórnskipunarréttar, tilmæli þess felast og snúa beint að ríkisstjórninni, þær eru (Forseti hringir.) bindandi fyrir ríkisstjórnina. Því er framkvæmdarvaldið ekki samþykkt. Og það er heldur ekki samþykkt því að þingsályktunartillögur gildi áfram og að þær séu virkar. Við verðum að fá það (Forseti hringir.) á hreint.