144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir orðið og hæstv. forsætisráðherra fyrir að mæta hér til að hlýða á mig. En ég kem hér upp til að lýsa áhyggjum mínum. Mér sýnist sem hv. þingmenn h stjórnarmeirihlutans séu fastir. Þeir eru fastir í fortíðinni. Fyrir þeim hefur 2015 aldrei runnið upp, árið 2014 kom heldur ekki. Þeir virðast hafa fest á árinu 2013 í maí og hafa aldrei farið fram yfir þann tíma.

Það er örugglega mjög gott fyrir útlit og ytra byrði, en það er áhyggjuefni fyrir stjórnmálin á Íslandi að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans geti ekki rætt um neitt sem gerðist eftir að síðasta ríkisstjórn fór frá völdum og hin nýja tók við. Ég skal segja þér, virðulegi forseti, að mig grunar að ástæðan fyrir því sé skortur á framtíðarsýn. Og ef maður hefur ekki framtíðarsýn þá er ágætt að dvelja í fortíðinni. En ég er ekki viss um að það sé heillavænlegt fyrir þjóðina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)