144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kærkomið að fá að ræða nokkuð þá undarlegu atburðarás sem hófst með bréfsendingu utanríkisráðherra í síðustu viku og þau grundvallaratriði sem þau bréfaskrif og sá víðfrægi bréfburður hæstv. ráðherra til annarra landa kalla á að rædd séu.

Í fyrsta lagi er vert að minna á, í ljósi ræðu hæstv. ráðherra áðan, að þingræðisreglan er grundvallarregla, skráð í 1. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Það þýðir að ráðherrann lýtur þinginu, ekki öfugt. Ráðherra getur ekki kosið að vild að virða að vettugi ályktanir Alþingis, telja sig lesa einhvern annan meiri hluta eða aðra viljaafstöðu út úr samsetningu Alþingis á hverjum tíma. Það liggur fyrir í formlegum ákvörðunum Alþingis og ráðherra er að sjálfsögðu, ef hann vill haga stjórnarstefnu með öðrum hætti en fyrir liggur í ályktunum Alþingis, bundinn af því að leita samþykkis Alþingis við nýrri stefnu. Hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi það í verki í fyrra þegar hann lagði fram tillögu um að dregin yrði til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hann féllst með verkum sínum á þá grundvallarreglu þingræðisins að leita þyrfti afstöðu Alþingis vegna þess að viljaafstaða Alþingis kynni þá að vera annars eðlis en hún var 16. júlí 2009. Hann hafði það auðvitað fyrir sér að nýr meiri hluti hafði myndast á Alþingi Íslendinga. Sú tillaga varð ekki samþykkt á Alþingi og ekki fyrir tilverknað stjórnarandstöðunnar.

Hæstv. ráðherra hefur margsinnis reynt á undanförnum dögum og nú síðast hér áðan að endurskrifa söguna og halda því fram að það hafi verið stjórnarandstaðan sem stöðvaði framgang þeirrar tillögu á síðasta ári. Hún var rædd í fyrri umræðu í samtals fimm daga eins og rakið var ágætlega áðan í umræðunni um fundarstjórn forseta og var ekki afgreidd út úr utanríkismálanefnd í hverri sex af níu fulltrúum eru fulltrúar stjórnarflokkanna. Það segir okkur allt sem segja þarf um að stjórnarflokkarnir náðu ekki saman um afgreiðslu málsins. Ef stjórnarflokkarnir hefðu náð saman um þá afgreiðslu hefði vegur tillögunnar í 2. umr. verið lagður og við hefðum getað tekist á um hana hér. Án efa hefði orðið um hana umtalsverð umræða en það er auðvitað þannig að meiri hlutinn ræður á endanum. Ef hæstv. ráðherra hefði viljað virða þingið hefði honum verið í lófa lagið að leggja slíka tillögu fram í haust á nýjan leik og láta fara fram um hana umræðu á Alþingi. Allir vita hvernig þingsköpum er háttað og að möguleikar stjórnarandstöðu til að stöðva framgang þingsályktunartillögu eru afar takmarkaðir út frá reglum um ræðutíma og fjölda umræðna. Undanbrögð og áburður ráðherrans um að þinginu sé um að kenna eða ómálefnalegri afstöðu stjórnarandstöðunnar vísa ég til föðurhúsanna.

Samkvæmt þingskapalögum ber hæstv. ráðherra að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar ákvarðanir. Nú er það svo að hæstv. utanríkisráðherra hefur orðið þrísaga um það hvort í reynd hafi falist meiri háttar ákvörðun í hinu umrædda bréfi og ekki öll kurl komin til grafar í því efni. En röksemdir hans fyrir að hafa ekki haft samráð við utanríkismálanefnd felast í því einu að málið hafi ekki verið stórvægilegt. Ég segi á móti: Samráðsskyldan sem með lögum er kveðið á um við utanríkismálanefnd er fortakslaus og lýtur að meiri háttar utanríkismálum og samskipti okkar við Evrópusambandið hljóta að teljast meiri háttar utanríkismál. Og jafnvel þó að hæstv. ráðherra gæti haldið því fram að hér hefði ekki verið um meiri háttar ákvörðun að ræða sem kallaði á samráð, þá spyr ég: Hvaðan fékk hann heimild til að dylja og leyna utanríkismálanefnd ákvörðuninni? Það liggur fyrir að hann gerði það. Ákvörðunin er tekin á þriðjudegi. Hann heldur henni leyndri fyrir eigin fulltrúum í utanríkismálanefnd Alþingis. Það er ekki bara að hann virði ekki við þá samráðsskyldur, ónei. Hann heldur þeim með blekkingarleik frá upplýsingum um ákvörðunina og gerir svo lítið úr þeim að gera þeim það að sitja utanríkismálanefndarfund á fimmtudagsmorgni, vitandi ekkert um þær ákvarðanir sem utanríkisráðherrann er búinn að taka í meiri háttar utanríkismáli.

Þegar horft er á atburðarásina út frá þessu sjónarhorni, ekki bara um hið skýra brot hæstv. ráðherra á hinni jákvæðu samráðsskyldu heldur ásetning hans um að leyna utanríkismálanefnd aðgerðunum, er augljóst að hann brýtur 24. gr. þingskapalaga sem kveður á um samráðsskyldu við Alþingi um meiri háttar utanríkismál.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um sína nýju þingræðiskenningu sem er sú í grunninn að hann sé ekki bundinn af neinu og að ákvarðanir Alþingis um utanríkismál séu að engu hafandi eftir alþingiskosningar. Sem rökstuðning fyrir þessu flytur hann fram álit sem hann lét sérpanta í ráðuneytinu hjá sér haustið 2013 og byggir á grundvallarmisskilningi á einum dönskum fræðimanni. Ég vísa í mjög gott álit og greinargerð Kristrúnar Heimisdóttur sem skrifar í Kjarnann í gær mjög ítarlega greiningu á misskilningnum sem liggur til grundvallar álitinu frá haustinu 2013. Í fyrsta lagi spurði hæstv. ráðherra villandi spurningar. Hann spurði: Hafa ályktanir Alþingis lagalega þýðingu í þeim skilningi að þær geti haft bindandi áhrif á stjórnvöld umfram það sem leiðir af þingræðisvenjunni? Þar með er í spurningunni byggt á þeirri forsendu að þingræðisvenja sé ekki stjórnskipunarlög og mæli ekki fyrir um stjórnskipulegar skyldur. Það er bara rangt. Þingræðisvenja, að þingið mæli fyrir um meginstefnu utanríkisstefnunnar og stjórnvöld virði er venja sem hefur verið óröskuð alla tíð á Íslandi.

Í greinargerðinni er líka fjallað um sjónarmið sem koma fram í dönskum fræðiritum, enda segir í álitinu að enda séu í Danmörku stjórnskipulegar heimildir fyrir samþykkt þingsályktana alveg sams konar og hér á landi. Hið rétta er að stjórnskipulegar heimildir fyrir samþykkt þingsályktana um utanríkismál eru ekki alveg sams konar á Íslandi og í Danmörku, langt í frá. Í álitsgerðinni er reist alfarið í tilvísunum í Jørgen Albæk Jensen, prófessor í Árósum, og höfundar álitsins misskilja í grundvallaratriðum afstöðu þessa ágæta fræðimanns. Hann hefur sjálfur skrifað ítarlegan bókarkafla um sérstöðu utanríkismála hvað varðar þingsályktanir og gildi ályktana um utanríkismál og komist að þeirri niðurstöðu að þó að formlegt stjórnskipulegt forræði ríkisstjórnar sé fyrir hendi — samkvæmt dönsku stjórnarskránni vel að merkja, ekki þeirri íslensku — ráði þingið samt í reynd í Danmörku. Hér er vald þingsins ríkara hvað varðar mörkun stefnu í utanríkismálum en í Danmörku, en jafnvel í Danmörku ræður þingið alltaf samkvæmt niðurstöðu fræðimannsins sem álitshöfundar ráðherrans reistu álitið á. Grundvallarforsenda álitsins er því röng og þar af leiðandi niðurstaðan.

Eitt besta dæmið er rakið í grein Kristrúnar en það er um þingsályktun sem raunverulega skiptir miklu máli, mjög nýlegt dæmi, og hefur verið virt fram yfir kosningar. Það er þingsályktun sem var lögð fram án lagaskyldu haustið 2008 um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var umdeilt á vettvangi stjórnmálanna, m.a. var einn stjórnmálaflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, á móti þeirri ályktun en í ljósi þverpólitískrar samstöðu að öðru leyti sem hér varð, aukins meiri hluta Alþingis, virti það stjórnmálaafl og önnur stjórnmálaöfl þennan grundvallarþátt utanríkisstefnunnar. Það leiddi til meiri þverpólitískrar samstöðu um úrvinnslu hrunsins á Íslandi en í nokkru öðru Evrópuríki og það er fráleitt af utanríkisráðherra landsins að halda því fram að þingsályktanir um utanríkismál séu óbindandi í ljósi allra þessara staðreynda.

Ef hæstv. ráðherra telur að þingmeirihluti hafi breyst ber honum að leggja tillögur þar að lútandi fyrir Alþingi og sannreyna þann meiri hluta. Hann getur ekki gefið sér eitt eða neitt um stuðning félaga sinna og ég held nefnilega að nákvæmlega þetta hafi hæstv. ráðherra gert. Í kjölfar yfirlýsinga hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra í ársbyrjun um að til stæði að leggja á nýjan leik tillögu um viðræðuslit fyrir Alþingi hafi menn kannað grundvöllinn í stjórnarflokkunum og komist að því að ekki væri tryggt að meiri hluti væri fyrir því að svíkja kosningaloforðin skýru sem Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega gaf í aðdraganda kosninga um að engar grundvallarákvarðanir yrðu teknar um slit á aðildarviðræðum nema að undangengnu umboði þjóðarinnar. Ég held einfaldlega að niðurstaðan úr samræðunum í þingflokkum stjórnarflokkanna hafi verið þess eðlis að ekki var þingmeirihluti fyrir málinu. Þá ákveður hæstv. ráðherra að taka skemmri skírn, reyna að búa til eitthvert bréf, sem hann hefur reyndar haft margar skoðanir á hvað þýði, og reyna að ná þeim árangri sem hann hefur margsinnis reynt að ná frá því að hann tók við vorið 2013, að reyna að túlka hluti með þeim hætti að Evrópusambandið ákveði að slíta aðildarviðræðum við Ísland. Man þingheimur atburðarásina sumarið 2013 þegar hæstv. utanríkisráðherra fór mikinn og sagði að í ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta að greiða IPA-styrki, sem var bein afleiðing af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hætta aðildarferlinu, fælist að aðildarviðræðunum væri slitið, Evrópusambandið væri að slíta þeim? Man þingheimur viðbrögð Evrópusambandsins þá? Þið skulið sjálfir hafa fyrir því að slíta þessum viðræðum. Það er ekki hægt að ljúga afstöðu upp á viðsemjendur til að reyna að fá þá til að gera það sem ríkisstjórnin treystir sér ekki til að gera og hafði greinilega aldrei vissu fyrir að hún hefði þingmeirihluta fyrir að gera, að slíta viðræðunum án aðkomu þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur í dag sagt að málið sé nú í höndum Evrópusambandsins. Það er auðvitað mjög sérstakt að ekki verði ráðin skýr viljaafstaða ríkisstjórnar Íslands til aðildarferlisins heldur skuli menn segja að þeir séu búnir að skrifa bréf, eru ekki búnir að fá umboð til þess frá þinginu en þeir vona að Evrópusambandið taki þá á orðinu. Eftir umræðuna í dag, eftir ummæli hæstv. ráðherra og virðingarleysi hans fyrir Alþingi Íslendinga, virðingarleysi hans fyrir ákvörðunarbærni Alþingis um utanríkismál, er alveg ljóst að það var grundvallarþörf á því að við formenn stjórnarandstöðuflokkanna skrifuðum bréfið sem við skrifuðum síðastliðinn föstudag til Evrópusambandsins og stofnana þess til að upplýsa um hinn raunverulega, lýðræðislega bakgrunn þessara ákvarðana og hina fullkomnu vanheimild sem ríkisstjórnin hefur til að tjá sig þvert á gildandi ályktanir Alþingis, hafandi sjálf viðurkennt með tillöguflutningi í fyrra að það þurfi nýja ákvörðun Alþingis til að breyta hinni fyrri. Undan því kemst ríkisstjórnin aldrei að hún viðurkenndi í verki að það þyrfti annarrar ályktunar við. Hún rann á rassinn með að koma þeirri ályktun í gegnum þingið vegna þess að hún hafði ekki til þess meiri hluta. Þá kaus hún leið gerræðisins og kaus að ganga á svig við þingræðislegar meginreglur. Það er grundvallaratriði þessa máls og þar liggur skömm hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar.