144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að standa í neinum þrætum við hv. þm. Árna Pál Árnason um þær fræðilegu greinargerðir sem hafa verið lagðar fram í þinginu, bæði frá skrifstofu Alþingis og frá utanríkisráðuneytinu, varðandi þetta mál. Þær tala sínu máli og eru býsna skýrar, hvað sem menn kjósa að misskilja í þeim efnum. Ég held hins vegar að æskilegt væri ef hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er leiðtogi þess flokks sem hefur í gegnum árin sýnt mestan áhuga á því að Ísland gangi í Evrópusambandið og hafði forgöngu um það á síðasta kjörtímabili að farið væri í aðildarviðræður, lýsti því fyrir okkur hvað hann teldi að þyrfti til að koma til þess að aðildarviðræður hæfust að nýju.

Hvernig sér hv. þm. Árni Páll Árnason það fyrir sér að ríkisstjórn sem eftir atvikum hann og aðrir ESB-sinnaðir flokkar ættu aðild að mundi koma þessu aftur í gang? Getur hv. þingmaður aðeins horft með okkur fram á veginn og lýst framtíðarsýn sinni hvað það varðar?