144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ef vilji ríkisstjórnar og þings á þeim tíma stendur til þess og þing vill ekki breyta þeirri þingsályktun er það eðlilegt. Þingsályktunin frá því 16. júlí 2009 er mjög merkileg í sögunni, t.d. vegna þess að hún var ekki lögð fram á flokkspólitískum grunni heldur var reynt að ná utan um flókið úrlausnarefni, sameinast um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan samning fullbúinn í dóm þjóðarinnar. Þetta er aðferðafræði sem þáverandi hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson lögðu til haustið 2008, töldu mjög skynsamlegt. Hvorugur þeirra ýjaði einu sinni að því að sækja ætti umboð til þjóðarinnar áður en sótt yrði um aðild, en það átti að fara nákvæmlega þá leið sem síðar var farin í þingsályktuninni 16. júlí 2009.

Það sem er líka merkilegt við hana er að menn tóku ákvörðun úr ólíkum flokkum og sumir efasemdarmenn um ágæti Evrópusambandsaðildar. Ég man eftir því að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, sem þá var í Framsóknarflokknum, kom hér upp í ræðustól og sagði í atkvæðaskýringu að hann vildi ekki endilega segja já en hann vildi segja kannski, kannski, kannski. Á þann hátt nálgaðist meiri hluti Alþingis verkefnið, óskaði eftir því að fá samning og lagði upp með samningsumboð sem var efnisríkt og ítarlegt. Það er held ég ályktun sem stendur þar af leiðandi fyllilega fyrir sínu, en það er auðvitað ákvörðunaratriði Alþingis á hverjum tíma, segjum 2030, ef t.d. þessi hörmungarríkisstjórn situr þangað til, sem ég held að séu blessunarlega engar líkur á, en það væri ákvörðunaratriði ríkisstjórnar og þings ef menn vildu endurvekja málið einhvern tímann í framtíðinni (Forseti hringir.) hvort þingsályktunin frá 2009 væri fullnægjandi, ef ekki mundu menn (Forseti hringir.) væntanlega gera á henni viðbætur. Ég held að ekkert þing (Forseti hringir.) muni til langframa virða (Forseti hringir.) þær valdníðslukenningar sem (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra er búinn að setja hér fram (Forseti hringir.) um þingsályktanir á sviði utanríkismála (Forseti hringir.) og bíða eftir þeim.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því að þingmönnum að þeir virði ræðutíma.)