144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ágætt að fá það fram hér að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, telur lögfræðilega tækt og stjórnskipulega tækt að á árinu 2030 verði dregin upp þingsályktun Alþingis frá 2009 um að hefja aðildarviðræður við ESB og unnið á þeim grunni. Um það erum við ósammála og lítið við því að gera.

Mér finnst ánægjulegt í þessu máli að ágreiningurinn hefur verið töluvert afmarkaður. Það liggur fyrir núna að menn vilja standa vörð um þingræðið. Um það virðist mér þverpólitísk sátt. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það megi eiga von á því að þeir þingmenn sem vilji halda áfram aðildarviðræðum leggi aftur fram einhvers konar þingsályktunartillögu, ef ekki lög, um það (Forseti hringir.) efni á þessu þingi.