144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í gildi er þingsályktun frá 1949 um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það hefur enginn efast um gildi hennar og það er ekkert þing sem hefur viljað taka hana upp, þess vegna er hún í gildi. Á alveg sama hátt mun þingsályktunin frá 2009 gilda um ókomna tíð. Ef ríkisstjórn og þing á einhverjum tíma vill byggja á henni, taka upp þráðinn, er það mögulegt að öllum réttum stjórnskipunarlegum skilningi. Ég held að víðtæk samstaða sé um vörn um þingræðið hjá sumum þingmönnum. Ég tek eftir því að hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt hér ræður og málflutningur hans hefur ekki snúið að vörn um þingræðið heldur þvert á móti vörn um gerræði gegn þinginu, vörn um það að ráðherrar geti farið sínu fram með eigin hausatalningum á þingmönnum. Og hann hefur sjálfur í fyrra lagt fram endemistillögu til þingsályktunar þar sem hann gerði þingmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu árið 2009 upp skoðanir holt og bolt og var gerður afturreka með hana því að hún var móðgun við þingið. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra hefur hér margsinnis (Forseti hringir.) talað fyrir allt öðru en þingræði (Forseti hringir.) og vörn um Alþingi Íslendinga.