144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

(Gripið fram í: Segðu bara nei.) Virðulegi forseti. Ég verð að segja fyrst af öllu að hv. þingmaður svamlar hér um í ræðustól í því tímahylki sem hann virðist fastur í ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar og virðist ekki komast út úr síðasta kjörtímabili. Ég veit að síðasta ríkisstjórn gerði margt gott og ég veit að þetta var mikill tími til góðs fyrir íslenskt samfélag, en ég held samt að við þurfum að halda áfram. Ég held samt að við þurfum að takast á við ný verkefni. Ég held samt að við eigum að gera eitthvað nýtt í lífinu. Við getum ekki bara dvalið í þessari sælutíð. Við verðum að fara að horfa eitthvað fram á veginn. Ég held að það eigi við um hv. þingmenn eins og ráðherra ríkisstjórnarinnar að þeir verða að fara að horfast í augu við samtíma sinn í staðinn fyrir að skrifa skáldsögur um fortíðina. (Utanrrh.: En spurningin um Björgu Thorarensen?)

Hv. þingmaður skrifar hérna skáldsögur um atburðarás á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í.) sem eru með þeim hætti að það stendur ekki steinn yfir steini í þeirri röksemdafærslu. Ég nenni ekki að elta ólar við það allt saman. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur margsinnis skýrt nákvæmlega hvað hann átti við með tilvitnuðum orðum.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir, orð hans voru mjög athyglisverð hér áðan: Það hefur enginn stjórnskipunarspekingur, það hefur enginn málsmetandi lögfræðingur talið að við gætum ekki gert það sem væri verið að gera. Stóra spurningin er: Hvað er verið að gera? Það er það sem svarið hefur aldrei komið við. Það er enginn sem efast um að menn megi skrifa bréf. En það er bara þannig að þegar um er að ræða ákvörðun sem Alþingi hefur tekið getur ráðherra ekki gengið á svig við hana á réttum þingræðislegum grunni. Það er enginn málsmetandi lögfræðingur í landinu sem hefur sagt það, ekki nokkur einasti, að ráðherra hafi frjálst vald til þess að svívirða þingræðisregluna og grundvallaratriðið (Gripið fram í.) um að ályktanir (Forseti hringir.) Alþingis um utanríkisstefnu séu bindandi (Forseti hringir.) fyrir utanríkisráðherra. Það hefur enginn málsmetandi stjórnskipunarsérfræðingur sagt það.