144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að koma hér upp og fara vandlega yfir það með okkur hverjir það voru sem studdu þessa tillögu í núverandi stjórnarflokkum á síðasta þingi, vegna þess að það var allt hárrétt.

Þá skulum við líka fara yfir það að fimm þingmenn þáverandi stjórnarflokks, Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, greiddu atkvæði gegn tillögunni, það var nú öll kúgunin, það var nú öll þvingunin, (Gripið fram í.) það var nú öll kattasmölunin. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Nú skulum við fara að leggja þessi mál til hliðar og hætta að væna menn hér í salnum um að standa ekki með sannfæringu sinni. Þessi tillaga var samþykkt vegna þess að það var samstaða um hana þvert á alla flokka sem áttu sæti á Alþingi þá, það var einfaldlega þannig. Menn geta ekkert farið að endurskrifa söguna núna bara af því að það hentar þeim.