144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns vil ég byrja á að minna á það að það var síðasta ríkisstjórn, ekki Alþingi, sem sótti um aðild að Evrópusambandinu þannig að verklýsing síðasta þings til þeirrar ríkisstjórnar um hvernig ætti að standa að þeirri umsókn getur augljóslega ekki gilt fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr. En látum það liggja á milli hluta. Það er augljóst af stjórnarskrá, þar sem það kemur sérstaklega fram að utanríkismál eru á hendi framkvæmdarvaldsins, að ríkisstjórnin er ekki bundin af ályktun síðasta þings.

Lítum svo fram hjá því og látum þessa þingsályktun liggja á milli hluta vegna þess að hvað sem henni líður tók síðasta ríkisstjórn skýrt fram að hún áskildi sér rétt til að slíta viðræðunum á hvaða stigi málsins sem væri. Telur þá hv. þingmaður að núverandi ríkisstjórn sé svo bundin af áliti síðasta þings að hún (Forseti hringir.) hafi ekki einu sinni sama rétt og síðasta ríkisstjórn hafði?