144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ákallar hér þingheim um að hætta að líta til baka og tala um það sem gerðist í fortíðinni. Ég ætla ekki að verða við því ákalli því að þetta mál verður ekki rætt öðruvísi en það verði skoðað hvernig því var hrundið af stað. Þá er ég að vísa til kvöldsins fyrir alþingiskosningarnar 2009 þegar forveri hv. þingmanns, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, var í beinni útsendingu á RÚV og hann var spurður að því hvort það kæmi til greina að Vinstri grænir mundu fara í ríkisstjórn og hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Svarið var fimm nei með mismunandi tilbrigðum.

Því spyr ég hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur: Hvað finnst henni um upphaf málsins og það að Vinstri grænir sviku þarna hressilega kosningaloforð sitt fyrir þessar kosningar?