144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á landsfundi Vinstri grænna 2009 var samþykkt ályktun um að Vinstri hreyfingin — grænt framboð væri á móti aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að Vinstri hreyfingunni — grænu framboði fyndist mikilvægt að málið yrði afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var sú leiðsögn sem ég hafði þegar stjórn var mynduð með Samfylkingunni sem vildi setja þetta mál á dagskrá, að til þess að þjóðin kæmist að þessu máli væri réttlætanlegt að sækja um aðild þannig að við gætum leyft þjóðinni að taka afstöðu í máli sem hefur verið til umræðu í íslenskum stjórnmálum allt frá því í raun og veru að Ísland varð aðili að EES-samningnum. Sú tillaga var samþykkt í öllum æðstu stofnunum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Þannig var aðdragandi þessa máls sem hv. þingmaður leitar hér eftir og spyr um.