144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason spyr um aðdraganda þessa máls nánast eins og hann hafi ekki verið félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þegar samþykkt var að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Samfylkingunni á þeim forsendum sem okkur eru öllum kunnar. Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi verið viðstaddur þann flokksráðsfund sem það var samþykkt þannig að hann man þetta allt eins vel og ég.

Hann man líka vel eftir þeirri samþykkt sem gerð var á landsfundi 2009 þar sem einmitt var rætt um aðkomu þjóðarinnar. Mér kemur það því nokkuð á óvart að hv. þingmaður komi hingað upp til að spyrja mig, sem var með honum í flokki á þessum tíma, nákvæmlega hvað hafi gerst í innyflunum hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á þessum tíma, því að það er hv. þingmanni vel kunnugt.