144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur komið skýrt fram í máli hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra að ætlunin með þessu bréfi var að slíta umræðunum, að gera það sem var reynt að gera hér með þingsályktunartillögu á seinasta þingi þótt hún hafi ekki náð í gegn. Það liggur fyrir í rökstuðningi hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra að ástæðan fyrir því að þessi leið var farin núna sé að Alþingi sé ekki treystandi til þess að fara með málið vegna þess fyrirbæris sem kallað er málþóf. Við röktum það áðan að það var ekkert málþóf þegar málið var rætt í fyrra, það voru bara ítarlegar umræður um mjög stórt málefni og svo endaði málið í nefnd en ekki í einhverju dagskrárleysi.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður lítur á þann rökstuðning þessara tveggja hæstv. ráðherra fyrir því að gera þetta upp á eigin spýtur án atbeina þingsins á þeim forsendum að þinginu sé ekki treystandi fyrir því.