144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson verður að sætta sig við að ég vel þau orð sem mér sýnist. Ég held að ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti líka valið þau orð sem þeim sýnist. Það sem ég bendi á í þessu sambandi varðandi innihald þingsályktunartillögunnar í fyrra er að efnisatriðin sem þar er að finna eru önnur en í bréfinu. Þar er tekið á hlutum með öðrum hætti og þess vegna eru þær formreglur, ef við getum orðað það svo, sem gilda annars vegar um bréfið og hins vegar um þingsályktunartillöguna ekki endilega þær sömu. Hins vegar liggur alveg fyrir að þær tvær mismunandi leiðir sem hérna er verið að fara, annars vegar þingsályktunartillaga og hins vegar bréf, byggja báðar á pólitískri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem er sú sama í báðum tilvikum, en reglurnar í kringum það eru auðvitað öðruvísi af því nálgunin er allt önnur.