144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Fyrir mér snýst þetta ekki um einhverjar landsfundarályktanir hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um þjóðarviljann, þetta snýst um almannaviljann. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn slógu Evrópumálin út af borðinu í síðustu kosningabaráttu vegna þess að þeir lofuðu fyrir kosningar að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er svo einfalt. Þetta eru bara blekkingar og ekkert annað. Það er verið að blekkja fólk. Mér þykir mjög dapurt þegar Sjálfstæðisflokkurinn, sem telur sig vera kjölfestuna í íslenskum stjórnmálum, lýgur blákalt að fólki. Þetta var þannig. Þið talið um pólitískan ómöguleika en hann er ekki til staðar. Ef þjóðin ákveður að halda eigi áfram með aðildarviðræður að Evrópusambandinu gerir ríkisstjórnin það. Hún er til þess að framfylgja þjóðarviljanum. Við erum kosin á þing af þjóðinni og þingið velur síðan ríkisstjórnina. Ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að fara að þjóðarviljanum þá fer hún frá og boðar til nýrra kosninga. Það er bara þannig. Þetta er einfalt og það á ekki að ljúga og svíkja.