144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður fór að tala um gildi þingsályktunartillagna er óhjákvæmilegt, þó að okkur báðum leiðist að fara með lögfræðistagl úr ræðustól þingsins, að hafa í huga að þingsályktunartillögur eru mismunandi hvað þetta varðar. Um þetta er fjallað bæði í álitsgerð lögfræðinga utanríkisráðuneytisins og álitsgerð lögfræðings Alþingis um þetta efni, þar sem m.a. er gerður greinarmunur á þingsályktunartillögum sem eiga sér stoð í stjórnarskrá eða lögum, því að stundum er beinlínis gerð krafa um að tilteknar ákvarðanir séu teknar með þingsályktunartillögu. Það á t.d. við um fullgildingu þjóðréttarlegra samninga, viðskiptasamninga, fiskveiðisamninga og í sambandi við aðild að alþjóðastofnunum o.s.frv. Þar er bara krafa um að það sé ákveðið með aðkomu Alþingis í þingsályktunartillögum.

Slíkar tillögur hafa annað og meira bindandi gildi en yfirlýsingar sem verður að líta á sem einhvers konar viljayfirlýsingar eða tilmæli til ráðherra eða ríkisstjórnar. Um þetta er nokkuð fjallað og þess vegna er ekki hægt að tala um allar þingsályktunartillögur í sama ljósi þegar þetta er til umræðu og er ekki til þess fallið að varpa skýrara ljósi á málið að það sé gert. En ég vísa aftur til álitsgerðanna um þetta efni, staða þingsályktunartillagna er mismunandi að þessu leyti.

Hitt er annað mál, eins og ég hef sagt áður í umræðunni, að telji þingið eða einstakir þingmenn eða meiri hluti þings að ráðherra gangi gegn þingviljanum í einhverjum málum þá eru ákveðin úrræði fyrir hendi í því sambandi. Þar birtist málið skýrast (Forseti hringir.) í þingræðisreglunni, sem þýðir það að ráðherra (Forseti hringir.) getur ekki setið nema þing styðji hann eða að minnsta kosti þoli hann í embætti.