144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er engan veginn viss um hvað hv. þingmaður var að reyna að segja, ekki frekar en ég skilji vel bréf hæstv. utanríkisráðherra, annað en að ég veit bara að Ísland er enn þá umsóknarríki vegna þess að ákvörðun hér inni hefur ekki verið tekin um það að afturkalla umsóknina.

Er hv. þingmaður að segja að út af þessari mismunandi lagalegri stöðu þingsályktana hefði ekki þurft í lagalegum skilningi þingsályktun til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Ég meina, ég gat ekki skilið annað en að það sé í raun og veru ríkuleg vanþörf á þingsályktunum yfir höfuð að mati þingmannsins, að meira að segja svona stór ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hana hefði vel mátt taka bara með bréfi, er það ekki?

Ókei, kannski er það þá í einhverjum þröngum lagalegum skilningi í huga þingmannsins leyfilegt, en væri það rétt? Hefði það verið rétt að beita sömu mælikvörðum lýðræðisins og þingræðisins á þá ákvörðun, eins og hv. þingmaður virðist vera reiðubúinn að gera núna? Það að draga umsóknina til baka er ein af stærri ákvörðunum í utanríkismálum í samtímanum. Og ef bréf nægir til þess þá hlýtur að bréf að hafa nægt til þess að sækja um. En í þessu ljósi sjá menn auðvitað í hvaða villu og vitleysu þessi umræða er komin og mjög mikilvægt að tapa sér ekki í svona lagaflækjum.