144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ef eitthvað kemur gott út úr þessum dögum þá er það kannski ákveðin árétting á því að stórar ákvarðanir skuli teknar af þjóðkjörnum fulltrúum eða af þjóðinni og að þessi tilraun til að taka ákvörðun eftir öðrum leiðum í svona stóru máli hefur mistekist. Það má út af fyrir sig líta á það sem jákvætt skref, ef ég skil spurningu hv. þingmanns rétt.

En eitt vil ég segja líka út af því að mér finnst gríðarlega mikilvægt að slíta ekki þessum viðræðum. Það er stefna Bjartrar framtíðar að ljúka þessum viðræðum, fá samning á borðið og bera hann undir þjóðina. Þannig viljum við leiða þetta mál til lykta, og helst vildum við að samningurinn væri það góður að þjóðin gæti samþykkt hann og við mundum gerast aðilar að ESB. En við mundum líka sætta okkur við aðra niðurstöðu ef hún er lýðræðislega tekin og eftir opna umræðu. Mér finnst það vera ákveðið grundvallaratriði, sem ekki má gleymast, að það er ótrúlegur áfellisdómur yfir lýðræðinu í þessu landi og stjórnmálamenningunni einhvern veginn að við getum ekki klárað þetta ferli og leyft þjóðinni að ráða þessu.

Mér finnst líka með þetta bréf, að hæstv. utanríkisráðherra — sem er nú farinn, sýnist mér — virðist líta svo á að á einhvern hátt hafi hann slitið viðræðunum. Það er svona þráður í mér sem finnst það bara alveg ágætt að hann líti svo á. Þá gerir hann ekki meiri usla í þessum málum í bili og við bara leyfum honum að halda það. Það er kannski bara ágæt niðurstaða að við séum þá ekkert að segja honum neitt meira. Hann er auðvitað ekki búinn að slíta þeim.