144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um að hæstv. utanríkisráðherra líti svo á að hann hafi slitið þessum viðræðum. Hann taldi það kannski part úr síðustu viku en hann var alla vega kominn heim og farinn að hugsa eins og viti borin vera í morgun í morgunútvarpinu þegar hann lét orð falla sem hann endurtók efnislega hér í andsvörum við mig fyrr í dag. Þau voru þess eðlis að hann féllst á að það væru engin stjórnskipuleg málefni sem gætu leitt til þess að ef hv. þm. Guðmundur Steingrímsson yrði til dæmis utanríkisráðherra að baki kosningum og kysi að taka viðræðurnar upp aftur væri eitthvað sem mælti gegn því. Það er áfangi, sérstaklega miðað við hvernig upp í þessa sjóferð var lagt.

Svo hvet ég hv. þingmann til þess að taka sér þann þingmann sem hér stendur, 4. þm. Reykv. n., til eftirdæmis og vera glaður og líta á björtu hliðarnar. Hvað hefur áunnist? Það er búið að vekja Evrópumálin af dvala. Það er búið að búa til 8 þús. manna mótmælafund. Það er búið að taka ómakið af okkur Evrópusinnum og eiginlega gulltryggja að þjóðaratkvæði um framhald viðræðna verður meginefni næstu kosninga. Það er nánast búið að ganga frá því að frá sé skorin væn sneið öðrum megin úr Sjálfstæðisflokknum, sem er að birtast þessa dagana sem Viðreisn. Sá flokkur var í morgun að lýsa yfir stuðningi við skoðanir okkar um að fara eigi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhaldið.

Þetta hefur áunnist, þannig að ég vildu nú segja það í fyllstu vinsemd við hv. þingmann að í mínum augum, þegar ég lít yfir síðustu viku, þá er hæstv. utanríkisráðherra eiginlega starfsmaður vikunnar. Hann er búinn að ná því að gjörbreyta hinu pólitíska ástandi hér á Íslandi. Harold Wilson, breski forsætisráðherrann, sagði eitt sinn að vika væri langur tími í pólitík, en hæstv. utanríkisráðherra er búinn að gjörbreyta stöðu ríkisstjórnarinnar og gjörbreyta stöðu okkar Evrópusinna á fjórum dögum. Nú skulum við sjá hvað gerist á þeim þremur dögum sem enn þurfa að líða til þess að vikan fyllist.