144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það má segja að hitinn í þessari umræðu hafi farið úr þegar hæstv. ráðherra hélt ræðu sína í dag og svaraði síðan andsvörum. Ég tel að kjarni málsins felist í því hvort bréf hæstv. utanríkisráðherra hafi leitt til þess að staða Íslands hafi með einhverjum hætti skaddast. Það kom algjörlega fram í máli hans í andsvörum við mig fyrr í dag að svo er ekki. Hæstv. ráðherra sagði það algjörlega skýrt þegar ég spurði hann, og reyndar ítrekað aðra sem hér hafa talað af hálfu stjórnarinnar, hvort það væru einhver stjórnskipuleg efni sem stæðu í vegi fyrir því að ný ríkisstjórn gæti ef hún vildi tekið upp þráðinn þar sem núverandi sleit hann. Svarið við því var algjörlega skýrt. Hæstv. ráðherra sagði það algjörlega svart á hvítu, alveg eins og hann sagði í viðtali við Morgunblaðið á fimmtudaginn í síðustu viku, að bréf hans hefði í reynd ekki breytt neinu um það að því leyti að engu hefði verið rift og ekkert hefði verið slitið. Það er það sem skiptir máli fyrir mig í dag. Ég tel að með því að hafa málið í þeirri stöðu sé ekki hægt að túlka bréf hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að það hafi falið í sér kurteislega bón, ekki kröfu, um að Ísland yrði tekið af einhverjum lista yfir umsóknarríki ESB en hins vegar væri málið áfram í ferli formlegra viðræðna þótt þær séu í hléi.

Ég spyr til dæmis þann skelegga hv. þingmann sem talaði áðan, Frosta Sigurjónsson, sem flutti málefnalega ræðu og skýrði vel sjónarmið sín, þó að það væri margt sem ég væri ósammála í ræðunni: Hvers vegna er þá ekki látið reyna á þennan þingmeirihluta sem hv. þingmaður sagði að væri fyrir hendi og slökkt endanlega á ferlinu? Það var núna sem tækifærið var fyrir Heimssýn, fyrir andstæðinga ESB-aðildar hér í ferlinu til þess a.m.k. seinka því, eins og hæstv. ráðherra kallaði fram í fyrr í dag, jafnvel um 12 ár. En það er ekki gert.

Það sem hefur meira að segja gerst hér í dag er að einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem raunar gegnir þyngsta embætti sjálfstæðismanna varðandi utanríkismál, hv. þm. Birgir Ármannsson, horfði fram á veginn. Hann spurði alla þá hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem tóku til máls hvort þeir væru reiðubúnir til að fallast á það að ef aftur yrði lagt í þennan leiðangur, hugsanlega bak kosningum eins og hann orðaði það, gerðu menn það einungis eftir að hafa farið í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kallaði hann snertiflöt. Síðan hélt hv. þm. Birgir Ármannsson langa og ítarlega og merkilega ræðu um að hann teldi að það mundi taka svolítinn tíma og mundi ekki vera hægt að gera algjörlega strax, því að endurskoða þyrfti ákveðin mál sem þegar er búið að ganga frá í samningunum. Þetta er málefnalegt sjónarmið en sýnir hins vegar að jafnvel þeir á þeim væng Sjálfstæðisflokksins sem andæfa aðild, eða maður hefur talið að hefðu verið að andæfa aðild, eru farnir að gera því skóna að það kynni að fara svo að eftir næstu kosningar taki við ný ríkisstjórn sem láti á þetta reyna.

Ég er þeirrar skoðunar að það megi álasa hæstv. ráðherra fyrir það hvernig hann hefur haldið á þessu máli. Það hefur runnið upp fyrir mér í umræðunni í dag að hugsanlega var hann settur í ómögulega stöðu á millum annars vegar skýlausrar kröfu hæstv. forsætisráðherra í útvarpsviðtali um að slíta viðræðunum með tillögu hér og hins vegar andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna kunni hann mögulega að hafa farið þessa leið. Það má út af fyrir sig vorkenna hæstv. ráðherra fyrir það. Hins vegar er það þannig að í stjórnmálum eru ákveðnar grundvallarskoðanir sem menn verða að láta reyna á.

Hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem talaði áðan, hafa alltaf talað eins og það sé þeirra dýpsta sannfæring, að það skipti fátt eins miklu máli fyrir framtíð Íslands og að koma í veg fyrir að það gangi nokkru sinni í Evrópusambandið. Nú höfðu þeir tækifærið. Þeir létu ekki á það reyna. Auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér af hverju svo er.

Herra forseti. Sömuleiðis hafa spunnist hérna merkar umræður sem eru af stjórnskipulegum toga. Þær hafa spunnist um það hvernig væri hægt að slíta aðildarferlinu. Við höfum heyrt mismunandi skoðanir á því. Sumir hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar halda því fram, og jafnvel enn þá, að bréf hæstv. ráðherra jafngildi slitum. Hæstv. fjármálaráðherra var þeirrar skoðunar á fyrstu dögunum, hæstv. utanríkisráðherra sömuleiðis og meira að segja hæstv. forsætisráðherra tók svo til orða. Ég tel hins vegar að í þessu máli skipti bara eitt máli fyrir okkur og það er sú staðreynd að hæstv. forseti þingsins hefur kveðið algjörlega skýrt upp úr með afstöðu sína. Hann hefur sagt það klárt og kvitt að reginmunur sé á því að leggja fram tillögu um slit og hins vegar hinu að fara með þetta bréf.

Það vill svo til að Evrópusambandið er sammála forseta Alþingis í því efni. Það er þá rétt að grafast aðeins fyrir um skoðanir þess. Jú, menn hafa hent gaman að því. Mér fannst það hins vegar tragíkómískt, jafnvel tragískt, að hæstv. utanríkisráðherra smækkaði sjálfan sig og utanríkismál Íslands með því að fara að rífast í fjölmiðlum við blaðafulltrúa ESB. Hvað var það sem blaðafulltrúinn hélt fram? Sú ágæta kona var algjörlega klár á því að í bréfinu fælist ekki ósk um slit. Hún hafði ákveðin forréttindi sem við þingmenn á Alþingi Íslendinga höfðum ekki. Hún vissi til hvers var ætlast með bréfi hæstv. utanríkisráðherra.

Það hefur verið upplýst hér í dag, ekki af mér heldur af öðrum þingmanni, og þess vegna geri ég það að umræðuefni, að í utanríkismálanefnd í morgun hafi hæstv. ráðherra greint frá því að hann hafi sent bestu menn sína, æðstu embættismenn ráðuneytisins, til Brussel til að skýra efni þess fyrir Evrópusambandinu. Með öðrum orðum naut sá blaðafulltrúi sem talaði og kvað svo skýrt upp með hvernig ESB leit á bréfið þeirra forréttinda sem við höfðum ekki, að vita hver tilgangurinn var. Það skiptir máli. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum var túlkunin sú að það sem hæstv. utanríkisráðherra vildi var ekki að slíta ferlinu heldur taka okkur af lista umsóknarríkja. (Gripið fram í.) Svo hefur hæstv. utanríkisráðherra líka (Gripið fram í.) gert okkur þann greiða að upplýsa hvað í því felst. Í því felst þetta: Við verðum ekki boðuð á fundi umsóknarríkja sem við höfum hvort sem er ekki sótt. Og í öðru lagi verður ekki ráðgast við okkur undir hatti umsóknarríkja heldur undir hatti EES/EFTA-ríkja.

Herra forseti. Aðeins um gildi þingsályktunartillagna og um það hvað framkvæmdarvaldið getur leyft sér. Ég hef sagt áður hér — og það getur hv. formaður utanríkismálanefndar lesið í þeirri bók sem liggur á borði mínu, Þingræði á Íslandi, sem Alþingi Íslendinga kostaði að hluta til í tilefni af 100 ára afmæli þingræðis á Íslandi 2004 — að Alþingi er fullvalda. Það er æðsta ákvörðunarvald á Íslandi. Hvað felst í því? Því eru reistar ákveðnar skorður sem markast vitaskuld fyrst og fremst af stjórnarskrá en sömuleiðis, eins og segir þar, af fastmótuðum vinnuhefðum sem hafa í reynd umbreyst í óskrifaðar reglur. Ein þeirra, og sú þungvægasta, er auðvitað sú sem hæstv. ráðherra hefur sett hald sitt á og við öll grundvöllum starf okkar á, það er þingræðisreglan, en hún er hvergi skráð í stjórnarskrána.

Með sama hætti hafa mótast aðrar fastar verkhefðir sem ber að taka tillit til þó að ekki sé hægt að segja að það sé beinlínis brot á stjórnarskrá þótt ekki sé farið eftir þeim. Til dæmis hefur það mótast sem hefð á Alþingi Íslendinga að stefna Íslands í utanríkismálum er mótuð á Alþingi Íslendinga með þingsályktunum. Það er þess vegna sem utanríkismálin, ásamt tveimur öðrum málaflokkum, njóta sérstakrar stöðu í stjórnarskránni. Það er til dæmis sagt algjörlega skýrt að þjóðréttarsamninga þurfi að staðfesta hér. Það er ekki svo í dönsku stjórnarskránni. Og sú hefð hefur mótast að með þingsályktun tekur Alþingi ákvörðun um aðild Íslands að erlendum stofnunum.

Herra forseti. Í þessu efni, af því að tími minn er að verða útrunninn og ég get ekki farið dýpra í þetta, ætla ég eigi að síður að setja hald mitt og traust á lærðasta lögfræðing Framsóknarflokksins, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem hefur sagt það úr þessum stóli að þingsályktunartillögu um umsókn um aðild að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) verði ekki breytt nema með nýrri þingsályktun.