144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki tekið sæti á Alþingi, held ég að ég fari rétt með, þegar þetta var og tók þar af leiðandi ekki þátt í þeim umræðum. Ég veit hreinlega ekki hvaða ástæður lágu að baki þess hvernig þar var staðið að málum og get þess vegna ekki tjáð mig um það hvaða röksemdafærsla hefur verið fyrir því að senda bréf til þess að gera hlé á aðildarviðræðunum.

Mín skoðun er sú að það sé alltaf betra að hafa meira samráð en minna þannig að án þess að þekkja bakgrunn málsins vil ég segja að mér hefði þótt eðlilegt að upplýsa utanríkismálanefnd um þetta, einmitt í ljósi þess að ég tel að við eigum frekar að hafa meira samráð en minna. En sem sagt ég þekki ekki aðdraganda málsins og þá mögulega hvort það að gera stopp í ótilgreindan tíma hafi verið talið léttvægt utanríkismál, en það er náttúrlega mun stærra mál það sem hér er undir í dag, þ.e. að hætta algerlega aðildarviðræðunum.