144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og mat að Ísland sé betur komið utan Evrópusambandsins. Það er sú stefna sem var samþykkt á síðasta landsfundi flokksins og hefur verið stefna okkar. Þó að vissulega séu virkir einstaklingar innan okkar hreyfingar sem eru á öndverðum meiði og tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið þá er það stefna hreyfingarinnar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið.

Við höfum hins vegar verið þeirrar skoðunar að að lokum þurfi að skera úr um það hvort við förum í Evrópusambandið með þjóðaratkvæðagreiðslu og um það eru samþykktir hjá stofnunum flokksins að réttast sé — ég held að ég sé alveg örugglega að fara rétt með — að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður. Í okkar huga er það ekkert vandamál að vilja leiða ferlið til lykta fyrst hér í þinginu og síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við verðum svo bara að vinna með það hver verður niðurstaða þjóðarinnar þegar upp er staðið.