144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú gæti ég mjög auðveldlega snúið boltanum til baka en ég veit að hv. þingmaður er búinn með andsvör sín. Það er svo að hv. þingmaður er í flokki sem lofaði þjóðinni því mjög hátíðlega að hún fengi að kjósa um þetta mál og forustumenn og frambjóðendur í öllum kjördæmum landsins eru til á spólum um að þessu verði (Gripið fram í.) vísað til þjóðarinnar. Þar af leiðandi hefði verið auðvelt að spyrja forustumenn í Sjálfstæðisflokknum, eins og trúnaðarmenn þeirra og formann utanríkismálanefndar: Hvernig hafði Sjálfstæðisflokkurinn hugsað sér að „agitera“ í þeim atkvæðagreiðslum sem hann lofaði þjóðinni ef þær hefðu nú orðið? Ef stjórnarandstaðan eða aðrir slíkir sameinast um tillöguflutning um að skjóta málinu til þjóðarinnar er líklegt að ég verði ekki langt í burtu þaðan, ef það yrði t.d. samstaða um það í stjórnarandstöðunni. En hvernig ég ætla síðan að greiða atkvæði skyldi koma til slíkrar atkvæðagreiðslu eða fyrir hvaða málstað ég ætlaði að berjast er fullsnemmbært að úttala sig um. Ég er andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Kannski getur hv. þingmaður eitthvað ráðið af því þótt það hlægi hæstv. utanríkisráðherra, ég bara gleð hann með því, það er svo gaman að geta glatt hæstv. ráðherra því að það eru stundum dimmir dagar hjá honum. Þetta er nú bara einu sinni þannig. Ég hef ekki skipt um grundvallarsannfæringu í þeim efnum.

Það er dálítið háð mati á aðstæðum hverju sinni. Mitt mat var eftir því sem leið á þessar viðræður að búið væri að fjárfesta það mikið í því ferli að ávinningur væri af því að láta á það reyna hvort hægt væri að klára það. Ég var kappsamur um til dæmis að erfiðu kaflarnir opnuðust upp þannig að við sæjum á spilin, þannig að við hefðum a.m.k. eitthvað út úr leiðangrinum og varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar það dróst og dróst, eins og kunnugt er. Við fengum kannski ekki eins skýra leiðsögn út úr ferlinu og við hefðum getað fengið ef Evrópusambandið hefði opnað rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál, ef það hefði sett á okkur opnunarskilyrði og við hefðum séð hver þau voru o.s.frv. Þeim spurningum er enn ósvarað.

Ég er mitt á milli þeirra sem hafa trú á að Ísland geti fengið mjög miklar undanþágur og sérlausnir og hinna sem (Forseti hringir.) telja að við getum ekki fengið neitt, vegna þess að þegar ég skoða þetta í öðrum Evrópulöndum þá sé ég að það er blandað. (Forseti hringir.) Mér þykir alltaf skemmtilegust undanþágan sem Álandseyingar fengu frá tollabandalaginu sjálfu, (Forseti hringir.) að mega selja tollfrjálst brennivín.