144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Síðasti hv. þingmaður sem flutti ræðu hér, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, byrjaði á að vitna í Shakespeare og nóbelsskáldið. Ég mundi vilja geta vitnað í Shakespeare og sagt að hér væri ys og þys út af engu. Það er því miður ekki alveg þannig og í rauninni eina Laxnesstilvitnunin sem mér dettur í hug er: „Þrá er sauðkindin …“ sem Bjartur í Sumarhúsum sagði en bætti reyndar við „en hvað er það á móts við kvenkindina.“

Það sem maður veltir hins vegar fyrir sér er hvernig á því stendur að ríkisstjórn Íslands ákveður að leggja af stað í þennan leiðangur sérstaklega þegar haft er í huga að hann hefur í för með sér mikinn pólitískan kostnað fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir annan stjórnarflokkinn hér, sem er í sárum vegna málsins og er algerlega klofinn í afstöðu sinni til þess bréfs sem hér um ræðir og hvaða þýðingu það hefur. Að mörgu leyti er hér á ferðinni ys og þys út af engu vegna þess að það er orðið morgunljóst að bréf hæstv. utanríkisráðherra hefur enga þýðingu nema svona til að friða einhverja samvisku eða einhverja innri óeirð vegna stöðu málsins. Dálítið kaldhæðnislegt að vísu að hér séu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að bisa við það fram hjá þingi að losa Ísland af einhverjum lista þegar haft er í huga að fyrir um 12 árum voru þeir að bisa við það fram hjá þingi að koma Íslandi á einhvern lista. Svolítið sambærilegt mál.

Hvaða rök eru það sem færð hafa verið fyrir þessum málatilbúnaði öllum af fulltrúum ríkisstjórnarinnar? Jú, þau að allir hafi mátt vita að núverandi ríkisstjórn sé ekki á leiðinni að fara að semja við Evrópusambandið, að allir megi vita að þessir tveir flokkar séu á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið. En hefur einhver verið að halda því fram að þeir ættu að gera það? Hefur einhver verið að reyna að knýja þessa tvo flokka til þess að fara í samninga við Evrópusambandið? Hefur einhver verið að segja þessum tveimur flokkum að þeir hafi það víst á stefnuskránni að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Nei, enginn. Málið hefur bara sofið nokkuð vært og verið á nokkuð ásættanlegum stað fyrir pólitíkina alveg frá því að stjórnarflokkarnir lögðu af stað í sinn síðasta misheppnaða leiðangur fyrir ári sem varð til þess að tillaga frá hæstv. utanríkisráðherra var rædd hér í nokkra daga, fjóra eða fimm, og send til nefndar þar sem hún var svo svæfð af stjórnarmeirihlutanum, kom ekki aftur út. Þá hefði maður getað sagt við sjálfan sig, úr því þeir mátu stöðuna þá þannig að of skammur tími væri til stefnu og úr því að þeir voru búnir að snurfusa þessa tillögu til og laga hana þannig að hún var ekki lengur meiðandi fyrir hluta af stjórnarmeirihlutanum, að þá hefði þeim verið í lófa lagið að flytja málið aftur síðastliðið haust, mæla fyrir því, láta ræða tillöguna í nokkra daga og svo gæti málið farið til nefndar og umsögn afgreidd úr utanríkismálanefnd.

Maður veltir fyrir sér af hverju það skyldi ekki hafa verið gert. Hvaða efnislegu rök geta legið því til grundvallar ef menn eru á annað borð á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að gera þetta með einhverjum hætti og mjög erfitt verði að koma málinu í gegnum þingið, sérstaklega þegar lítill tími er til stefnu, og af hverju fluttu þeir ekki tillögu um það síðastliðið haust? Var ekki áhugi á því eða var ekki meiri hluti fyrir því hjá stjórnarflokkunum? Þeir eru alltaf að tala um að þeir hafi hér ríflegan meiri hluta, það eigi ekki að koma neinum á óvart. Þannig að málið er ráðgáta. Það hefur nú þegar kostað Sjálfstæðisflokkinn töluvert og mun halda áfram að gera það. Ég er hræddur um að fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins snúi sér á ritstjórastólnum yfir þessum árangri sem þeir hafa náð í þessu að þjappa þjóðinni saman um það að reyna að klára aðildarviðræðurnar vegna þess að það hefur aldrei verið jafn mikill stuðningur við það meðal þjóðarinnar eins og eftir að hæstv. utanríkisráðherra með fulltingi ríkisstjórnarinnar reyndi að slíta viðræðunum. Það kemur hér maður eftir mann sem lítur svo á, ja, hefur aldrei viljað ganga í Evrópusambandið en finnst að það eigi að klára viðræðurnar og það sé ekki í höndum hæstv. utanríkisráðherra að ákveða það fyrir Íslendinga að þetta sé ekki málið.

Það liggur því alveg fyrir að það er eitthvað annað sem býr hér að baki. Þá hlýtur maður að skoða þann pólitíska veruleika sem við höfum búið við hér síðustu vikur og missiri, staldra við og sjá að það varð auðvitað mikill andlitsmissir fyrir Framsóknarflokkinn þegar það komst í hámæli að hann gat ekki farið í gegn með breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ekki er meiri hluti fyrir því í stjórnarflokkunum, engin stemning fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að gera svoleiðis breytingar. Menn eru sáttir við að hafa óbreytt ástand í svona öllum megindráttum. Þá varð auðvitað að gera eitthvað fyrir Framsóknarflokkinn í staðinn. Það varð að leyfa Framsóknarflokknum að koma hér með þessa tillögu þannig að hann gæti þóst hafa slitið þessum viðræðum þó svo komið hafi í ljós að það hefur enga merkingu. Þetta er því algjör sneypuför. Auðvitað hlýtur það að vera sárt fyrir stjórnarmeirihlutann að upplifa það, þrátt fyrir að vera með ríflegan meiri hluta, að hann hafi ekki atkvæðin sem þarf til að koma svona málum í gegnum þingið. Það hlýtur að vera ákveðið áfall. Hér er á ferðinni enn ein sneypuförin til hliðar við sjávarútvegsmálin.

Það er náttúrlega umhugsunarefni þegar haft er í huga að þegar hæstv. forsætisráðherra var spurður að því hér á dögunum hvaða mál fyrir utan skuldaleiðréttinguna hann gæti nefnt sem svona frumkvæðismál frá ríkisstjórninni, þá gat hæstv. forsætisráðherra ekki nefnt eitt einasta mál, gat bara talið upp einhverjar hagtölur sem eru algerlega óháðar frammistöðu ríkisstjórnarinnar eins og allir vita sem hafa starfað við stjórnmál lengur en tvær vikur. Fjölgun starfa frá ári til árs, eins og það sé hæstv. ríkisstjórn að þakka í því hagkerfi sem við erum í núna. Algerlega fráleitt. Hér er á ferðinni óvenju verklítil ríkisstjórn sem þarf auðvitað að sýnast vera að gera eitthvað sem skiptir máli.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég vildi að ég gæti vitnað í Shakespeare og sagt að hér væri ys og þys út af engu, en svo er því miður ekki, vegna þess að það sem er hér á ferðinni er vísvitandi tilraun ríkisstjórnar til að taka meiri háttar ákvörðun fram hjá þinginu. Upplifun ráðherra ríkisstjórnarinnar á stjórnskipun Íslands og röksemdafærslan fyrir því að færa málið fram með þessum hætti er stórkostlegt áhyggjuefni. Það er eitthvað sem þarf að fara vandlega yfir og á eftir að vera farið vandlega yfir í stjórnmálasögunni, hvaða tilraun menn reyndu að gera hér í þessu samhengi, að lýsa því einhliða yfir með bréfi, sem að vísu enginn skilur, að þessum viðræðum væri slitið.

Hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin öll vissi auðvitað að þetta mundi hleypa öllu í bál og brand og öll viðleitni eftir að málið kom fram hefur verið meira í þá áttina að reyna að espa ófriðarbálið en hitt. Allar ræður hafa miðað að því frá hæstv. ríkisstjórn að meiri hlutinn ráði og þetta sé bara „common sense“ og eitthvað sem er sjálfsagt að gera og öll mótmæli séu bara frá einhverjum súrum stjórnarandstæðingum, þetta sé í rauninni bara einhver pólitík. Það er ekkert gert til að reyna að lempa málið, ræða saman, komast að sameiginlegri niðurstöðu, eins og í rauninni hefði verið svo auðvelt fyrir ríkisstjórnina. Nei, þegar menn geta komið auga á góðan ófrið þá velja þeir hann í núverandi ríkisstjórn, sem er synd vegna þess að hér hefur tekist, þrátt fyrir þessa ríkisstjórn, að mynda alveg þokkalegan vinnufrið í þinginu, (Forseti hringir.) ótrúlega góðan vinnufrið. Í mörgum málum hefur (Forseti hringir.) náðst ágætisárangur. Það (Forseti hringir.) þolir ríkisstjórnin auðvitað ekki.