144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ákveðin hætta á því að þessi málatilbúnaður allur sé okkur til mikillar háðungar, ekki bara í Evrópusambandinu heldur mjög víða. Það er ekki boðlegt að málin séu afgreidd með þessum hætti. Þegar talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins sagðist líta svo á eða sagði að ekki væri um formleg slit að ræða af hálfu Íslands þegar bréfið hafði verið afhent er utanríkisráðherra Íslands kominn í rifrildi við fjölmiðlafulltrúa stækkunarstjórans og segir að leiðrétta þurfi þennan fjölmiðlafulltrúa sem viti bara ekki neitt hvernig í málinu liggur.

Það er háðulegt þegar svo er komið fyrir okkar utanríkispólitík. Þar fyrir utan, ef menn ætla að gera svona lagað þarf það að vera með formlegum hætti, þá er það eitthvað sem menn tilkynna með einhverjum fyrirvara og er á dagskrá. Það er einfaldlega ekki neinn bragur á því, svo notað sé það gamalkunna orðalag hér í þessum sal, að skilja eftir á borðshorni eitthvert umslag og biðja menn um að opna það þegar þeir eru farnir út, eða hvernig sem þetta var gert. Mér finnst það að minnsta kosti ekki sæmandi íslenskri utanríkismálapólitík að gera þetta með þeim hætti. Ef menn ætluðu að gera þetta þá er það hreinlegra að orða það nákvæmlega eins og þarf að orða það þannig að hugsunin sé alveg skýr.

Auðvitað var það ekki ætlunin í þessu samhengi. Þetta var fyrst og fremst hugsað til heimabrúks og þess vegna er þetta algjör sneypuför. Því miður er það orðspor Íslands sem er undir. Þetta er ekki einhver tilkynning til skagfirska efnahagssvæðisins, það er Ísland allt sem er undir í þessu samhengi og það erum auðvitað við sem borgum brúsann.