144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Aðeins um bréfið, gárungarnir hafa sagt að þetta sé þó alla vega bæting frá SMS-unum sem styrkjunum var deilt út í gegnum, að menn séu þó alla vegana komnir í einhver formleg bréfaskipti. Mér finnst þessi umræða einhvern veginn svo ótrúleg og sérstaklega af hálfu stjórnvalda á Íslandi og ég hef áhyggjur af því hvernig menn leyfa sér að tala um og til Evrópusambandsins. Talað er um það eins og það sé eitthvert fjarlægt fyrirbæri sem komi okkur varla við og við getum átt í einhverju valkvæðu sambandi við, þá finnst mér við þurfa aðeins að hafa það í huga að í því sambandi, Evrópusambandi, er Danmörk, Evrópusambandið er Svíþjóð, Evrópusambandið er Finnland, Evrópusambandið er Þýskaland, Evrópusambandið er Frakkland, Evrópusambandið er Spánn, Evrópusambandið er Pólland, Ítalía, þetta eru allt ríki sem við viljum eiga í góðu sambandi við. Þetta eru allt ríki sem við erum gríðarlega háð hvað varðar utanríkisviðskipti og svo leyfum við okkur að standa hér, þ.e. talsmenn Íslands og íslensku ríkisstjórnarinnar, og tala um þetta eins og einhvers konar klúbb sem komi okkur varla við, já og helst á tyllidögum, ef menn vilja gefa vel í, tala þeir eins og Evrópusambandið sé einhvers konar fyrirbæri sem ætli sér eitthvað illt með Ísland og íslenska hagsmuni, eins og þarna sé eitthvað ljótt á ferðinni. Þetta finnst mér alvarlegt og þess vegna tek ég undir áhyggjur hv. þingmanns í þessum efnum, að þetta geti farið illa með okkur, þetta geti farið illa með okkar trúverðugleika, ekki bara á pólitíska sviðinu heldur geti þetta haft áhrif, því miður, á samskipti að öðru leyti til lengri tíma litið.