144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allir vita sem hafa eitthvað lesið um eða fengist við stjórnun að sá sem þarf að segja „ég ræð“ er ekkert sérstaklega góður stjórnandi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það var átakanlegt að verða vitni að því að menn þurfi með þessum hætti að hrópa þetta, „ég ræð“. Það eru ákveðnir ferlar hérna sem menn þurfa að fylgja, alveg sama hversu mikinn meiri hluta þeir eru með. Það er líka ákveðið samtal sem þarf að vera í gangi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem menn þurfa að virða. Það er alveg sama hversu stór meiri hlutinn er eða hversu sterkar skoðanir menn hafa á Evrópusambandinu eða umsóknarferlinu eða hvernig til þess var stofnað, menn þurfa einfaldlega að gangast undir það að virða þessa ferla. Það er ekkert flóknara en það. Það sem er hér á ferðinni er bara pólitík freka kallsins þar sem menn ætla að fara sínu fram, hafa rekist á erfiðleika og fundist það ósanngjarnt og ætla samt að hafa þetta eins og þeir vilja, hefur fundist það óþægilegt, of mikið vesen og það sé hvort sem er meiri hluti. Ef þetta er mælikvarðinn þarf ríkisstjórn ekki að fara með mál í gegnum þingið. Þetta er svo einfalt, það er þingið sem þiggur umboð sitt frá þjóðinni og ríkisstjórnin þiggur umboð sitt frá þinginu. Þannig er það. Auðvitað er það þannig að fólk vill að sú stofnun sem er næst því fari með meiri háttar ákvarðanir. Það er bara svoleiðis. Síðan er ríkisstjórninni falið að framkvæma þær. Svoleiðis er það.