144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið, hv. þingmaður. Jú, það er rétt, ég hef tjáð mig nokkuð oft um vinnubrögð hér á þingi og ég tel að við getum enn bætt okkur á því sviði.

Varðandi það að ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið leyndir þessum bréfaskriftum vil ég segja að ég tel ekki að um slæm vinnubrögð sé að ræða, vegna þess að þeir sem sitja fyrir hönd stjórnarflokkanna hér á þingi eru sammála því að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið.

Stefnan hefur verið skýr, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan, við viljum ekki ganga í Evrópusambandið. Þess vegna fagna ég því og þótti bara ansi gott að hæstv. ráðherra skyldi fara þá leið að skýra þessa stefnu gagnvart Evrópusambandinu, skýra stefnuna gagnvart Íslendingum, eins og ég fór líka yfir í ræðu minni. Þessi óvissa og þessi hringlandaháttur er engum til góðs, hvorki okkur hér á landi né gagnvart Evrópusambandinu.