144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:14]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugavert og gott andsvar. Ég byggði ræðu mína áðan og rök mín á þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Einnig á skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem ég las spjaldanna á milli fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég tek niðurstöður mínar og rök mín þaðan, þannig að það að kalla þau klisjukennd finnst mér undarlegt af hv. þingmanni. Hann hefði átt að lesa þessar skýrslur jafn vel og ég.

Danmörk gekk í Evrópusambandið fyrir mörgum árum síðan þegar aðrar reglur giltu. Svo er ekki í dag. Þess vegna sagði ég í ræðu minni áðan: Fyrir rúmum 20 árum hreifst ég af hugmyndum um Evrópusambandið, en ég geri það ekki lengur vegna þess að Evrópusambandið hefur breyst. Það er ekki eins og það var 1992, það er ekki eins og það var 2002.