144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum á undanförnum missirum orðið vitni að ævintýralegum viðsnúningi, eiginlega heimsmeti í viðsnúningi, í stefnu eins stjórnmálaflokks þegar kemur að Evrópusambandinu og það er Framsóknarflokkurinn. Það var einfaldlega þannig að árið 2002 var það fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, sem kom með í fyrsta skipti alveg ágætisútleggingu á því hvernig við gætum samið um fiskveiðistjórnarmál okkar ef til aðildarviðræðna kæmi, byggði síðan undir þá skoðun sína rök sem hafa haldið æ síðan.

Síðan segir Framsóknarflokkurinn, í aðdraganda kosninganna 2009, að sækja eigi um aðild og leggja samning fyrir þjóðina. Nú eru menn komnir algjörlega á hina hliðina og vilja ekki einu sinni hleypa þjóðinni að því að svara spurningunni sjálf, hvort hún vilji ljúka aðildarviðræðum eða ekki.

Ég vil spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvers vegna treystir hv. þingmaður ekki fólkinu (Forseti hringir.) í landinu til að komast að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður hefur komist að? (Forseti hringir.) Hvers vegna hafa vit fyrir fólki? Hvers vegna ekki að svara (Forseti hringir.) 55 þús. Íslendingum: Já, þið megið ráða þessu.