144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór hér aðeins í sagnfræðina, sem á vel við því að ég er sagnfræðingur og hef gaman af að svara sagnfræðilegum spurningum. Það er rétt að stefna Framsóknarflokksins var önnur gagnvart Evrópusambandinu fyrir 2002, fyrir 13 árum. Hún var líka önnur árið 2009, það er rétt, samkvæmt samþykktum flokksþings okkar þá.

Eins og hv. þingmaður veit er stjórnmálaflokkur fólkið sem í honum er, og þeir breytast eðli málsins samkvæmt, hlutirnir breytast, umhverfið breytist og ég fór yfir það áðan að Evrópusambandið hefur breyst heilmikið, með nýjum sáttmálum og öðru sem gerir umhverfið allt annað. Ég nefndi áðan í ræðu minni óvissuna fram undan innan Evrópusambandsins. Staða þess er ekkert sérstaklega góð eins og er en mun vonandi batna á næstu missirum. (Forseti hringir.) Eðlilega hefur fólk leyfi til að (Forseti hringir.) skipta um skoðun og þróa sína hugmyndafræði.