144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú ekki spurning mín heldur var þetta frekar almenn athugasemd í upphafi orða minna. Ég spurði hvers vegna hv. þingmaður, sem virðist sjálf hafa komist að afgerandi niðurstöðu, treystir ekki fólkinu í landinu til að taka sjálft ákvarðanir um þetta. Kallað hefur verið eftir því, því hefur verið lofað af formanni Sjálfstæðisflokksins og í aðdraganda síðustu kosninga kom þetta sjónarmið líka fram hjá formanni Framsóknarflokksins.

Það kemur fram í Morgunblaðinu, á mbl.is, að 23. apríl árið 2013 var hæstv. forsætisráðherra á fundi VÍB. Þá var hann ítrekað spurður hvort flokkurinn mundi láta verða af þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið kæmist hann til valda. Sigmundur sagði þá að hann væri mjög opinn varðandi dagsetningar og að flokkurinn hefði alltaf gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla færi fram. (Gripið fram í.)

Þannig var það, virðulegi forseti. Báðir formenn stjórnarflokkanna töluðu um atkvæðagreiðslu, lofuðu atkvæðagreiðslu, sviku það. Og ég spyr, virðulegi forseti, og óska eftir því að hv. þingmaður segi okkur það hér: Hvers vegna (Forseti hringir.) treystið þið ekki fólkinu í landinu (Forseti hringir.) til að komast að sömu niðurstöðu (Forseti hringir.) og þið, ef Evrópusambandið er svona afleitt?