144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við vorum aftur komin út í efnislega umræðu um ESB, sem er kannski alveg við hæfi ef hið háa Alþingi ætlar að taka ákvörðun um málið. En ef hið háa Alþingi ætlar ekki að taka ákvörðun um málið hefur sú umræða lítið að gera hér.

Hvað varðar bréfið sem hæstv. utanríkisráðherra sendi út þá skilst okkur, eða á að skiljast af hæstv. utanríkisráðherra, að tilgangurinn með því hafi verið sá að skýra afstöðu ríkisstjórnarinnar í málefnum umsóknarferlis Íslands að Evrópusambandinu. Það klúðurslega við þetta allt saman er að það hefur aldrei verið óskýrara en nú og þótti skýrt fyrir. Ég man ekki eftir neinum mótmælum nýlega vegna málsins, fyrir utan síðasta föstudag og sunnudag og í gær, þ.e. þegar hæstv. utanríkisráðherra ákvað að gera það að máli aftur.

Þess vegna velti ég stundum fyrir mér hvað þeim gangi til. Þetta getur eiginlega ekki verið mjög vel planað hjá þeim í ríkisstjórninni. Þeir geta ekki hafa ætlað sér að þetta færi svona. Varla ætluðu þeir að senda Evrópusambandinu eitthvað sem Evrópusambandið mundi túlka einhvern veginn, hinn hlutinn af ríkisstjórninni mundi túlka einhvern veginn og stjórnarandstaðan þar að auki, og þingið allt reyndar ef út í það er farið, túlkað á alla vega tvennan mismunandi hátt, eða ýmist þannig að það hljómi eins og virðulegur forseti eða hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra eða Evrópusambandið eða einhverjir lögfræðingar úti í bæ. Þetta mál hefur aldrei verið flóknara en akkúrat núna, þökk sé skýringarbréfi hæstv. utanríkisráðherra. Ég trúi því varla að þetta hafi verið markmiðið.

Ég trúi því hins vegar upp á hæstv. utanríkisráðherra, og vissulega upp á hæstv. forsætisráðherra, að ætla að taka fram fyrir hendur þingsins eftir þá útskýringu sem við fengum fyrr í dag á því hvers vegna bréfið var sent, vegna þess að Alþingi sé ekki treystandi fyrir ferlinu. En þá var kvartað undan málþófi, við fórum yfir þetta áðan.

Það var talað mikið um tillöguna um að slíta viðræðum við Evrópusambandið fyrir um ári. Það var vegna þess að við vorum að tala um Evrópusambandið, stærsta utanríkismál Íslands um þessar mundir og síðustu ára. Það væri stórfurðulegt — nei, það væri gáleysi, það væri hneyksli ef ekki yrðu ítarlegar umræður um það á hinu háa Alþingi þegar stungið er upp á því að viðræðum sé slitið. Við eigum að ræða þessi mál hér, til þess er Alþingi, til að ræða þau mál. Fyrir utan það auðvitað að málið fór til hv. utanríkismálanefndar þar sem hv. 9. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson, er formaður. Málið var þar til umræðu og kom aldrei út aftur til síðari umræðu, eins og frægt er orðið. En málið var ekki drepið í neinu málþófi, það var bara ítarleg umræða um það, eins og er við hæfi. (HHj: Birgir Ármannsson drap það.) Birgir Ármannsson, hv. 9. þm. Reykv. n., drap málið ef einhver hefur drepið það með einhverju þinglegu ferli, málið var í utanríkismálanefnd.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekkert pólitískt leyfi til að réttlæta svona aðgerðir út frá því að Alþingi geri ekki það sem hann vill. En þetta er það sem hæstv. ráðherra sagði og annað sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt er að Alþingi hafi haldið málinu í gíslingu. Ef hæstv. ráðherrar vilja breyta því hvernig Alþingi vinnur þá, enn og aftur, er ég fyrsti maðurinn upp á dekk til að stinga upp á leiðum til að laga það hvernig málin ganga hérna. En ef þetta á að vera þannig að kjósendur fái einn bókstaf í mjög litlu stafasetti á fjögurra ára fresti til að segja allt sem þeim finnst um allt sem Alþingi og ríkisstjórn geri næstu fjögur árin ferst ráðherrum að tala um lýðræðislegt umboð.

Stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Jafnvel þótt þeir hefðu ekki gert það væri skynsamlegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þegar 22% kjörbærra manna krefjast þess, þetta eru 53.555 undirskriftir. Þúsundir manna eru á Austurvelli dag eftir dag eftir dag. En nei, það er málþóf á Alþingi sem á að hafa drepið málið.

Það er sérstaklega erfitt að hlusta á orð sumra stjórnarmeðlima, eins og hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, sem ég met þó mikils, sem segir að hann fagni aðgerðum ráðherra og lætur eins og hér sé um aðgerð að ræða. Það sem er undarlegt við það er að á sama tíma vilja aðrir hv. þingmenn meina að þetta hafi ekki verið nein aðgerð, ekki sé um neitt meiri háttar mál að ræða, þrátt fyrir þúsundirnar úti á Austurvelli, þrátt fyrir 53.555 undirskriftir, 22% þjóðarinnar, þrátt fyrir meint málþóf og auðvitað almenna geðvonsku í garð ríkisstjórnarinnar og sérstaklega í garð Framsóknarflokksins í öllum skoðanakönnunum sem birtast þessa dagana og hafa gert í dágóðan tíma núna.

Það er í raun og veru alveg sama hvernig maður lítur á lýðræðislegt umboð, það er ekkert lýðræðislegt umboð fyrir þessu. Hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir sögðu áðan að þau treysta þjóðinni til að taka ákvörðun um þetta mál. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór meira að segja út í það að segja að það hefði enginn raunverulega trú á Evrópusambandinu lengur. Já Ísland kallar sig ekki einu sinni Já ESB o.s.frv. Ef svo er er ég með hugmynd handa hæstv. utanríkisráðherra: Drepið þetta mál, setjið það í þjóðaratkvæðagreiðslu og klárið málið endanlega. Þá höfum við ekkert að tala um lengur hérna. En þeir þora það ekki. Þeir þora það ekki, virðulegi forseti, vegna þess að þeir vita hvernig fer. Fólk fer að tala saman um efnislegu umræðuna. Það sem gerist þá er að hugtakinu „aðlögunarviðræður“ skýtur upp, sem er notað til að blekkja fólk til að trúa því að með umsóknarferlinu sjálfu sé verið að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu. Síðan er því auðvitað snúið við og þegar kemur að því að ljúka samningnum sjálfum er allt í einu er farið að tala um aðlögunarviðræður eins og samningaviðræður almennt séu slæmar.

Auðvitað eru samningar aðlögun, að sjálfsögðu eru samningar aðlögun. Þegar við gerum fríverslunarsamning við Kína eða eitthvert annað ríki erum við að aðlaga hagsmuni okkar, við erum að aðlaga reglur okkar, við erum að aðlaga skattkerfin okkar, tollkerfin okkar o.s.frv. Það er allt í lagi. Hugmyndin um að aðlögun tveggja stórra fyrirbæra á borð við landa- og ríkjasambönd sé í eðli sínu neikvæð endurspeglar að mínu mati þann skrýtna ótta sem virðist ríkja í Framsóknarflokknum við allt sem er útlent og óíslenskt á einhvern hátt. Gleymdum því ekki að flest sem er á Íslandi er upprunalega óíslenskt, til að byrja með, með fullri virðingu fyrir þingi og þjóð.

Enginn hefur beðið þessa tilteknu flokka um að halda áfram með ferlið upp á síðkastið. Enginn hefur heimtað að hæstv. ríkisstjórn fari að klára þessa samninga. Það vill enginn. Þetta var í góðu lagi, þetta var eins gott og það gat orðið alla vega, í hléi fram að næstu kosningum þar sem hægt verður að öðlast einhvers konar lýðræðislegt umboð til að ákveða framhaldið. Það allra minnsta sem núverandi ríkisstjórn getur gert, ef bera á fyrir sig lýðræðislegu umboði, er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í lok kjörtímabilsins meðfram næstu alþingiskosningum. Að þeim alþingiskosningum loknum væri niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni einnig ljós og þá væri hægt að taka upp spjallið um næstu ríkisstjórn út frá þeirri forsendu hvort sú nýja ríkisstjórn — að því gefnu að hún yrði ný — treysti sér til þess að vinna að hagsmunum Íslands eða ekki. Það væri lögmæt spurning og kannski lögmætari spurning til að ákvarða hvernig við myndum ríkisstjórn en það hvernig vill svo til að menn náðu nógu miklum meiri hluta á þingi til að sniðganga Alþingi, með bros á vör í þokkabót.

Að lokum, þar sem ég hef ekki meiri tíma en þetta, vil ég stinga upp á þremur hlutum sem við getum gert til þess að ljúka fyrirbærinu málþóf í eitt skipti fyrir öll, þrjú einföld atriði. Við getum gert þetta á morgun, að mínu mati þurfum við ekki nýja stjórnarskrá:

1. Aðskilnaður ríkisstjórnar og Alþingis þannig að fólk geti ekki verið þingmenn og ráðherrar á sama tíma.

2. Málskotsréttur þjóðarinnar, að u.þ.b. 10% þjóðarinnar eða svo geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá þarf ríkisstjórnin ekki að bera ábyrgð á þessu heldur getur þjóðin ákveðið það sjálf.

3. Málskotsréttur minni hluta Alþingis. Þetta er gert í góðu, gömlu Danmörku. (Forseti hringir.) Það mundi þýða að málin yrðu sennilega aðeins betri hér áður en menn færu að sniðganga Alþingi þegar Alþingi gerir ekki eins og því er sagt. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.