144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrr í dag sagði formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, að við biðum eftir svari Evrópusambandsins við bréfaskriftunum. Um klukkan átta í kvöld birti mbl.is frétt um viðbrögð Evrópusambandsins sem hyggst ekki blanda sér í íslenska stjórnmálaumræðu. Haft er eftir formanni ráðherraráðsins, hinum lettneska Edgars Rinkevics, að þeir vilji ekkert tjá sig um málið. Aðspurður um það hvort hægt verði að endurvekja umsóknina, ef ósk Íslands verði um það síðar, segir hann að hann vilji ekkert tjá sig um málið.

Ég spyr hv. þingmann hvort þetta undirstriki ekki hve skelfilega óhönduglega haldið hefur verið á málinu gagnvart helstu samstarfsríkjum okkar. Þau virðast ekki vita sitt rjúkandi ráð um hvað er að gerast á Íslandi og vísa einfaldlega til þess að Íslendingar þurfi að ljúka sínum málum sjálfir. Þetta beinir líka athyglinni að mikilvægum hagsmunum Íslands í utanríkismálum, þ.e. þeim að geta haldið áfram umsóknarferli ef við svo kjósum, að ekki fáist svar við því, heldur sé það óvissu háð, vegna þessara bréfaskrifta ríkisstjórnarinnar, hvort samþykkt Alþingis sé enn í fullu gildi hjá gagnaðilunum.