144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. s. nefnir, það er ekki nema von að ráðherraráð ESB, Evrópusambandsins, eigi erfitt með að skilja bréfið. Og guð hjálpi þeim ef þeir fara að reyna að skilja eitthvað meira af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hér frá kosningum, því að það er algjörlega óljóst á hverjum einasta tímapunkti hvað stendur til að gera; hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslur og þegar það verður ljóst hvort fyrir liggi að slíta viðræðum endanlega, það er ekki ljóst, og svo þegar reynt er að skýra það þá verður þetta fyrst óljóst fyrir alvöru, algjörlega óljóst fyrir öllum, að því er virðist, þar á meðal ríkisstjórninni sjálfri. Túlkun aðila innan ríkisstjórnarinnar og innan þingsins og meðal lögmanna og meðal þeirra sem pæla mikið í þessu og Evrópusambandsins sjálfs er afskaplega óljós alls staðar, að því er virðist, sem er þvert á við það sem nokkur maður vill.

Vissulega dregur þetta úr trúverðugleika Íslands á alþjóðasviðinu og er það nú reyndar ekkert nýtt. Íslensk yfirvöld hafa verið óttalegir glannar í gegnum tíðina, hafa verið mjög yfirlýsingaglöð, hafa viljað ganga alla leið og básúnað sig mikið út í alþjóðlegri umræðu. Það kom best í ljós 2006–2007. Og mér finnst stundum að íslenskir stjórnmálamenn ættu að hafa lært það af hruninu að láta ekki á alþjóðavettvangi eins og þeir séu með allt á hreinu, hafi öll svörin og geti talað fyrir hvaða skoðun sem er án þess nokkurn tíma að kanna málin ítarlega, og þá sérstaklega í þessu tilfelli að kanna hvort Alþingi Íslendinga sé sátt við aðgerðir hæstv. utanríkisráðherra, en eins og við þekkjum (Forseti hringir.) þá virðist hann ekki treysta þinginu fyrir sínum eigin málum. (Forseti hringir.) Það er kannski það alvarlegasta sem við höfum komist að hér í dag og reyndar á föstudaginn.