144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður benti hér á frammíkall hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Hann er ekki bara hv. þingmaður, hann er líka aðstoðarmaður forsætisráðherra. Þannig hagar þessi ríkisstjórn sér, hún velur aðstoðarmenn úr þingliðinu. Þeir standa svo hér og kalla á okkur, kjörna fulltrúa, að ef við séum óánægð þá skulum við bara leggja fram vantrauststillögu. En það er mikilvægt að muna, hv. þingmenn, að þessi bréfaskipti snúast ekki eingöngu um okkur hér og nú. Þessi stofnun mun vonandi lifa okkur öll, þetta snýst um með hvaða hætti við ætlum að haga stjórnskipan í þessu landi.

Ég ítreka að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að vera vandari að virðingu sinni hvernig þeir umgangast hér stjórnarfar. (Gripið fram í.) Ég held að mörgum sjálfstæðismönnum sé brugðið að horfa upp á fulltrúa sína taka þátt í og verja gjörðir sem þessar.

Það kom líka fram þegar hæstv. utanríkisráðherra tjáði sig áðan að hann virðist telja sem svo að við þingmenn komum aðeins í ræðustól til að tefja umræður. Það er dálítið merkilegt að stjórnarliðar sjást varla hér í stólnum fyrr en núna. Í þessu máli streyma þeir fram til þess að verja aðför að þingræðinu. Þá vakna þeir til lífsins. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Af hverju ertu að tala núna þegar það verður engin atkvæðagreiðsla í kjölfar þessarar umræðu?