144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það eru ýmsar spurningar sem hrannast upp þessa dagana og ýmsar ráðgátur sem ekki hafa verið leystar. Kannski sú helst þó að reyna að ráða í það hvað er eiginlega á ferðinni hérna. Hvað er það nákvæmlega sem hæstv. ráðherra er að gera þegar við sjáum svona ótrúlega margar og fjölbreyttar leiðir til að reyna að túlka hvað gerðist og hvað er í gangi og hver raunverulegur vilji er og hvernig fólk sér fyrir sér að koma honum á framfæri?

Þannig var að í hádegisfréttum RÚV 17. janúar segir hæstv. forsætisráðherra að hann geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að tillagan komi fram, þ.e. þingsályktunartillaga í samræmi við þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þann 17. janúar var það planið.

Á Bylgjunni 2. mars segir hann: Ég geri ráð fyrir því að slík tillaga komi fram, enda er hún nefnd í málaskrá ríkisstjórnarinnar. Hvað er langt síðan? Það var 2. mars, virðulegi forseti. Það eru tvær vikur.

Hvað gerðist á þessum tveimur vikum sem gerði það að verkum að ríkisstjórnin breytti svo hressilega um kúrs í framsetningu málsins, innihaldi þess og skilningi á hlutverki þingsins við svona stórar ákvarðanir? Af því að sá skilningur var fyrir hendi 2. mars. Getur hv. þingmaður hjálpað mér að ráða í eyðurnar með það? Mér finnst algjörlega óskiljanlegt miðað við yfirlýsingarnar svona nálægt í tíma að það verði svo hraðar vendingar. Hvað telur hv. þingmaður að hér hafi gerst?