144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún spyr mig hvað sé á ferðinni. Það er von að spurt sé. Hv. þingmaður fer yfir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í upphafi árs, sem ég held að hafi ekki verið mjög undirbúið, í útvarpsþættinum Sprengisandi. Þegar búið var að spila fjögur eða fimm dægurlög í upphafi þáttarins kom forsætisráðherra og þá hófst umræðan og þar var meðal annars sagt að tillaga kæmi fram. Síðan var því fylgt eftir til að mynda af hæstv. utanríkisráðherra og nokkrir fleiri öpuðu það eftir, hver á eftir öðrum, í framhaldi af því.

Ég held að það hafi alltaf verið ætlun ríkisstjórnarflokkanna að gera eins og í fyrra, að koma með tillögu um slit viðræðna, en það sem hafi einfaldlega gerst sé að innan stjórnarflokkanna hafi menn talið að ekki yrði meiri hluti fyrir því að fara í þetta. Við vitum um tvo eða þrjá þingmenn sem vilja aðildarviðræður áfram, þeir hafa komið hér hreint og beint fram, en við vitum um aðra sem eru með efasemdir. Ég veit ekki hvort sú tilgáta mín er rétt, virðulegi forseti, að innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið svo margir þingmenn með efasemdir um að fara þessa för aftur í gegnum Alþingi að kröfu Framsóknarflokksins að sjálfstæðismenn hafi einfaldlega tekið til umræðu hvort það væri þess virði fyrir þá að taka á sig allt það tjón sem kröfur Framsóknarflokksins um slit viðræðna hefðu í för með því að koma fram með aðra þingsályktunartillögu, eins og þeir gerðu síðast og fóru burt með öngulinn í rassinum.

Það er erfitt að geta í eyðurnar innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og aðeins hægt að setja fram getgátur eins og ég hef gert hér. Það erfitt að ráða í það bara hver túlkunin verður á morgun. Hæstv. utanríkisráðherra sagði á bls. 14 í Morgunblaðinu á föstudaginn (Forseti hringir.) að ekki væri verið að slíta viðræðunum. Forseti Alþingis hefur sagt það, formaður utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) hefur sagt það. Er furða þótt þeir séu í vandræðum í Brussel með að túlka (Forseti hringir.) það sem kemur frá Íslandi?