144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega nokkuð raunalegt ef rétt reynist vera að hæstv. ráðherra ákveði í samráði við ríkisstjórn Íslands uppi í Stjórnarráði að sitja svo um þingflokka stjórnarflokkanna, treystandi á trúmennsku meiri hlutans og taka þessa ákvörðun og beinlínis gera það þannig að þau virðast taka ákvörðun um að komast hjá því að fara með málið fyrir þingflokkana, sína eigin þingflokka. Það ýtir auðvitað undir þann skilning eða tilgátu sem hv. þingmaður kemur með að því er varðar það hvað var hér á ferðinni. En þetta gerist ótrúlega bratt.

Ég held að afar mikilvægt sé í þessari umræðu sem hefur verið hérna að við gætum að því að það er þingsins að skilgreina hlutverk og verkefni þingsins. Það er ekki lögfræðilegt viðfangsefni fyrst og fremst heldur fyrst og fremst lýðræðislegt og pólitískt viðfangsefni að við höldum því alltaf til haga, og það þarf svo sannarlega að minna hæstv. utanríkisráðherra á það, að framkvæmdarvaldið hefur ekki sjálfstæðan vilja. Framkvæmdarvaldið tjáir vilja Alþingis og Alþingi tjáir sig með lögum og þingsályktunartillögum. Hv. þingmaður er með getgátur og vangaveltur um ástæður fyrir því að hæstv. ríkisstjórn fer þessa leið. En er hæstv. ríkisstjórn ekki beinlínis og vísvitandi að sniðganga Alþingi?