144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Þetta er dálítið ríkisstjórn freka karlsins. Í því sambandi vil ég spyrja hv. þingmann um hvernig gengið er um þingræðishefðirnar. Nú þekki ég að minnsta kosti engin dæmi þess, og hygg að það geri enginn annar, að utanríkisráðherra, af því að hann var fundinn upp hér 1940, hafi farið gegn þingsályktun Alþingis þótt hún hafi verið samþykkt á einhverju öðru kjörtímabili. Í Danmörku, hvaðan við sækjum ríkast hefðir okkar, er engin dæmi þess að finna að ríkisstjórn hafi nokkru sinni farið gegn ályktun danska þingsins. Verður ekki að segja bara skýrt á íslensku að hæstv. utanríkisráðherra hafi brotið alvarlega gegn langri lýðræðishefð á Íslandi?