144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni að þetta mál og reyndar fleiri, t.d. meðferðin á rammaáætlun og önnur slík mál, leiða í ljós að skerpa þarf línur ansi hressilega. Menn virðast umgangast vald sitt, löggjöf, ályktanir og ákvarðanir Alþingis eftir fullkomnum hentugleika. Viljum við hafa það þannig? Nei, við viljum það ekki. Við viljum skýrleika. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að við hér á þingi tökum góða, djúpa umræðu um stöðu þessarar stofnunar á næstunni. Forseti þingsins bregst hlutverki sínu ef hann hefur ekki forgöngu um að það verði gert í ljósi þess sem nú er að gerast. Það er bara svo einfalt.

Ég held líka að við verðum, eins og ég sagði í andsvari áðan, að fara að svara því kalli að gera breytingar á starfsháttum okkar með þeim hætti að við förum í auknum mæli að spyrja þjóðina ráða í stórum málum. Þannig komumst við líka frá því sem virðist vera ráðandi afl hjá þessari ríkisstjórn, komumst hjá því að sérhagsmunaöfl ráði jafn miklu og þau gera í raun. Við horfum til þess að sérhagsmunaöflin valda því að landinu er stjórnað með dyntum. Það er engin stefna, það er engin langtímasýn, það er engin stór mynd teiknuð upp af því hvert við erum að fara. Það eru dyntir hingað og þangað sem ráða ákvarðanatöku, sem er tilviljanakennd en þó ekki tilviljanakenndari en svo að það búa sérhagsmunaöfl að baki. Þau stýra þessu landi í gegnum þá ríkisstjórn sem nú situr. Ef við opnum á ákvarðanatöku og (Forseti hringir.) bjóðum þjóðinni að koma að henni þá minnkum við vægi sérhagsmunaaflanna.