144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á vef Morgunblaðsins í dag er umfjöllun um umræðu dagsins og skýrslu utanríkisráðherra sem hefur verið til umræðu hér í dag og yfirskriftin er: „Samráð óþarft vegna bréfsins“. Þar er verið að lýsa tilvísun hæstv. ráðherra til laga og ýmiss konar formlegs umbúnaðar sem styður þá niðurstöðu hans að hann hafi ekki þurft að eiga orðastað við utanríkismálanefnd og væntanlega ekki þurft að eiga samráð við Alþingi, hann hafi ekki þurft að eiga samráð við eigin þingflokka sem var að vísu ekki rætt sérstaklega í dag. En þetta er samt sem áður niðurstaða ráðherrans, bæði eftir formlegt og pólitískt mat á stöðunni, þ.e. að það sé óþarfi að eiga samráð við eigin stjórnarflokka, það sé óþarfi að eiga samráð við utanríkismálanefnd og það sé óþarfi að eiga samráð við Alþingi. Þar með er verið að segja að æskilegt sé að eiga ekki samráð nema maður sé tilneyddur til þess.

Var sem sé óráðlegt af einhverjum ástæðum — og ég spyr hv. þingmann hvað hann telji um það — að hafa samráð við eigin þingflokka? Var óráðlegt að hafa samráð við utanríkismálanefnd? Var óráðlegt að hafa samráð við Alþingi? Hvað hefði gerst, hver var hættan í hverju þessara tilvika fyrir sig?