144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að leita ásjár hæstv. forseta til að iðnaðarráðherra komi til fundar við atvinnuveganefnd. Þannig er mál með vexti að í nefndinni er ívilnunarfrumvarpið svokallaða eftir 2. umr. þannig að það er bara ein umræða eftir. Nefndin var búin að vinna það vel og fara í gengum ýmis atriði. Síðan birtist okkur í síðustu eða þarsíðustu viku samningur sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert við fyrirtækið Matorku. Ég óskaði eftir því að iðnaðarráðherra kæmi til að útskýra þetta og svara nokkrum spurningum eftir að ákveðnir aðilar komu á fund á þriðjudaginn í síðustu viku, nefndaviku, vegna mjög alvarlegra athugasemda sem þar komu fram, meðal annars frá aðilum sem eru í sambærilegum rekstri í bleikjueldi og Matorka. Tekið var vel í það af öllum nefndarmönnum, þar á meðal formanni, en á miðvikudag gat ráðherra ekki komið og fundur féll niður. Á fimmtudag gat ráðherra ekki komið og fundur féll niður. Í gær var fundur og ráðherra kom ekki. (Forseti hringir.) Þá ítrekaði ég óskina. Ég bið hæstv. forseta (Forseti hringir.) um liðsinni (Forseti hringir.) við því að fá ráðherra til að mæta (Forseti hringir.) á fund nefndarinnar til að ræða þetta mikilvæga mál.