144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar .

[15:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp út af sama máli og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem komið hafa upp á undan mér. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur beðist undan því að koma á fund atvinnuveganefndar og skýra mál sitt. Hún hefur ekki mætt. Það er mjög furðulegt í ljósi þess að beiðnir hafa ítrekað komið fram. Það er mjög furðulegt að hún vilji ekki svara fyrir það af hverju þetta sérstaka fyrirtæki þarf ekki að fá sérstakan samning eins og Thorsil fékk fyrir skömmu. Þetta fyrirtæki á að fara í gegnum þetta frumvarp, sem þó er ekki einu sinni farið í gegn, um almennar ívilnanir. Þetta er allt saman mjög einkennilegt og auðvitað þarf hún að svara pólitískt fyrir það. Kannski eru á því einhverjar skýringar, en það er óþolandi að fá þær ekki fram. Ég bið um að forseti beiti sér í því að fá ráðherra á fund nefndarinnar til þess að við í nefndinni getum sinnt því hlutverki sem okkur er falið að fylgjast með framkvæmdarvaldinu.